150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[15:05]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að lengja þessa umræðu, en ekki mikið. Mig langaði bara sem fyrsti flutningsmaður þessa máls að lýsa yfir ánægju minni með þá umræðu sem skapaðist um það í dag. Mér þótti hún málefnaleg. Ýmis sjónarmið voru dregin fram en kannski ekki síst það sem er lykilatriði, þ.e. að afstaðan til veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu, veru hers hér á landi, á ekki að hafa nein áhrif á vilja hv. þingmanna til að styðja frumvarpið, til að vilja meiri lýðræðislega umræðu um varnarmál og til að vilja auka veg Alþingis í að taka ákvarðanir þar um. Ég verð þó að segja að það hefur valdið mér örlitlum vonbrigðum að sjá að mjög margir hv. þingmenn, sem ég hef ýmist séð til á samfélagsmiðlum eða heyrt til á ljósvakamiðlum eða jafnvel séð að hafi miklar skoðanir á uppbyggingu herliðs hér á landi, hafa ekki séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu en ég treysti því að þeir muni sýna stuðning sinn í verki þegar kemur að afgreiðslu þessa máls.