150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

fjölmiðlanefnd.

[15:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mig langar að eiga hér orðastað við hæstv. ráðherra um þá stöðu sem kom upp í vor og lýtur að gagnrýni Blaðamannafélags Íslands á fjölmiðlanefnd og hlutverk hennar. Þetta var býsna beinskeytt gagnrýni sem endaði á því að Blaðamannafélagið dró fulltrúa sinn út úr fjölmiðlanefnd og sneri í grófum dráttum að gagnrýni á úrskurði nefndarinnar. Blaðamannafélagið taldi að með þeim væri verið að teygja sig inn á þann stað þar sem maður þyrfti jafnvel að hafa áhyggjur af opinberum afskiptum af ritfrelsi og tjáningarfrelsi, því hvort allt efni sem birtist í íslenskum fjölmiðlum heyri undir valdsvið nefndarinnar, hvort þarna sé komin nefnd á vegum ríkisins sem ætli að gefa umfjöllun fjölmiðla stimpil um að þetta sé í lagi en hitt ekki.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þessarar alvarlegu gagnrýni hvort ráðherra telji ástæðu til að endurskoða lög um fjölmiðla, þá sérstaklega með það að leiðarljósi að skýra hlutverk fjölmiðlanefndar. Án þess að ég ætli að fara að gerast allt of nákvæmur í spurningum mínum snýr þetta að einhverju leyti að 26. gr. núverandi fjölmiðlalaga þar sem kveðið er á um að fjölmiðlaveita skuli „í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi“. Það kom býsna skýrt fram í meirihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar á sínum tíma að hér væri verið að vísa í lýðræðislegar grundvallarreglur sem stefnuyfirlýsingu um þær í fjölmiðlum en ekki að tjáningarfrelsinu séu settar skorður.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að með beitingu þessarar greinar geti hlutverk fjölmiðlanefndar skarast við siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.