150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í jarðamálum sem fyrir liggur á þskj. 20 og er 20. mál þessa þings. Sú sem hér stendur er 1. flutningsmaður málsins og auk þess flytja málið aðrir þingmenn Framsóknarflokksins, þau Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórarinn Ingi Pétursson. Tillagan sjálf hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.“

Síðan eru talin upp sjö verkefni og aðgerðir sem ætlað er að draga fram hve margþætt verkefni bætt umsýsla lands er. Verkefnin sjö eru:

1. Lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.

2. Jarðakaup verði leyfisskyld.

3. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands og móti leiðir til að skilgreina búsetuskyldu í dreifbýli í skipulagi.

4. Löggjöf á sviði skráningar landeigna og eignamarka verði endurskoðuð.

5. Fasteignamat í dreifbýli verði uppfært.

6. Komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa.

7. Lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi annarra aðgerða í áætlun þessari og reynslu af framkvæmd þeirra svo sem jarðalög, ábúðarlög og lög um veiðifélög.

Þá er gert ráð fyrir því í tillögunni að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. febrúar 2021.

Ítarleg greinargerð fylgir tillögunni þó að þar sé aðeins drepið á aðalatriðum varðandi hverja aðgerð. Ég mun ekki ná að fara yfir allt það sem þar kemur fram en ég mun drepa á helstu atriðum.

Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna.

Land er takmörkuð auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Auk þess geta fylgt landi verðmætar viðbótarauðlindir.

Meðferð og notkun lands skiptir máli nú og til framtíðar. Það felast því miklir almannahagsmunir í ákvörðunum um ráðstöfun lands og öll ákvarðanataka um eignarhald og landnýtingu hefur áhrif á almannahagsmuni til framtíðar. Það geta því ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands. Mikilvægt er að taka grundvallarákvörðun um hvernig stjórnvöld ætla að gæta almannahagsmuna á þessu sviði. Til þess að það takist þarf að samhæfa lög, reglur og verklag en það er markmið aðgerðaáætlunarinnar. Til þess að ná árangri þarf sérstaklega að gæta að samspili laga, skipulagsáætlana og markmiða um landnýtingu og grunnupplýsinga um landið.

Þá aftur að aðgerðunum: Fyrsta aðgerðin snýst um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna sem sami aðili getur átt.

Gildandi lagaumhverfi leiðir af sér að rúmlega 500 milljón manns geta keypt land og aðrar fasteignir hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Flutningsmenn telja brýnt að settar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi enda hefur ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum. Þá eru dæmi um að sami aðili eigi fjölda jarða og fyrirsvar jarða sé óþekkt og óljóst.

Á síðustu árum hafa ýmsir starfshópar skoðað þessi mál, einkum út frá eignarhald á bújörðum og landbúnaðarlandi. Í september 2018 skilaði slíkur starfshópur áliti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar voru settar fram átta tillögur að leiðum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins með breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum. Nú stendur yfir frekari vinna á vegum forsætisráðherra með tillögurnar þar sem leitað er leiða til að skýra lagarammann fyrir jarða- og landaviðskipti, þar á meðal stöðu landsréttinda og vatnsréttinda, eins og kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra. Auk þess er unnið að upplýsingaöflun um eignarhald á landi.

Tillagan sem við ræðum er unnin til að draga það fram að verkefnið er enn víðtækara en sú vinna sem þegar er hafin og mikilvægt að fylgja málinu eftir á mörgum sviðum.

Við gerð reglnanna verður að gæta að þeim takmörkunum sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar sem og þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og verður þar einkum að líta til 40. gr. samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga innan svæðisins. Flutningsmenn benda þó á að svo virðist sem gengið hafi verið lengra í að opna heimildir til kaupa á landi en skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum gera ráð fyrir. Það leiði af samningnum að heimilt sé að takmarka eignarhald á fasteignum með lögum og án bótaskyldu á grundvelli skilgreindra markmiða byggðra á almannahagsmunum.

Ég hleyp hér yfir nánari skilgreiningu á mögulegri útfærslu á slíkum reglum en eins og áður hefur komið fram er það mat flutningsmanna að rétt sé að gerð sé krafa um að kaupandi lands búi á Íslandi, að það sé meginreglan, en undantekningar yrðu nánar útfærðar. Áhersla er lögð á að tilgangur jarðakaupanna sé skýr. Margs konar markmið, sem styrkja búsetu og samfélög, geta fallið þar undir, svo sem búfjárrækt, uppbygging gróðurauðlindar, landfrek atvinnustarfsemi eða nýsköpun byggða og sérstaða svæðisins, eins og menningarverðmæti eða náttúra. Þá verði meginreglan sú að sami aðili geti ekki átt meira en eina jörð án reglulegrar búsetu en aðili sem stundar landbúnað geti átt fleiri jarðir til þess að standa undir búrekstri eða annarri landfrekri starfsemi sem hann stundar á aðliggjandi jörðum eða nágrannajörðum.

Eins og áður kom fram er önnur aðgerðin að jarðakaup verði leyfisskyld með það að markmiði að tryggja byggð í dreifbýli og halda jörðum í landnýtingu. Um útfærslu slíkra reglna verði m.a. litið til norskrar og danskrar fyrirmyndar og tryggt að skilyrði leyfis séu skýr, nákvæm og gagnsæ. Þá verði unnin hlutlæg viðmið sem fylgt verði við töku ákvarðana um leyfisveitingu.

Með því að gera jarðakaup leyfisskyld verður einnig tryggð nauðsynleg aðkoma ríkis og sveitarfélaga að aðilaskiptum að landi svo að mögulegt verði að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga. Að mati flutningsmanna er jafnframt brýnt að skoðað verði sérstaklega hvort rétt sé að endurvekja forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum sem afnuminn var með samþykkt jarðalaga, nr. 81/2004, en leyfisskyldan og forkaupsrétturinn gætu að einhverju leyti náð sömu markmiðum.

Til þess að þetta sé mögulegt þarf að undirbyggja betur þau stjórntæki sem þarf að beita við setningu viðmiða, svo sem skipulagsáætlanir o.fl. Skipulagsáætlanir mætti nota bæði til að setja markmið um á hvaða jörðum heilsársbúseta væri æskileg og til að skilgreina hvaða land er mikilvægt að varðveita sem landbúnaðarland.

Þá kemur þriðja aðgerðin inn varðandi skipulagið. Stjórnvöld og almenningur hafa áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Í skipulagi væri hægt að skilgreina hvar mögulegt væri að gera kröfu um heilsársbúsetu, á grunni húsakosts eða innviða eins og vega, rafmagns og ljósleiðara. Krafa um heilsársbúsetu þarf einnig að byggjast á markmiðum um nýtingu og varðveislu landbúnaðarlands en gæti líka byggst á markmiðum um styrk samfélaga, byggðasjónarmiðum, áhrifum heilsársbúsetu á öryggi vegfarenda og eftirlit með landi, minjum og náttúruverndarsvæðum. Í landsskipulagsstefnu 2015–2026 er gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið, í samstarfi við Skipulagsstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landgræðsluna, Skógræktina og Bændasamtök Íslands, standi fyrir gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands til nota við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnýtingu. Mörg sveitarfélög hafa verið að prófa sig áfram á þessu sviði en það vantar samræmingu og forystu til að ná betri árangri.

Fjórða aðgerðin varðar landeignaskrá með hnitsettum eignarmörkum en það er ein af forsendum þess að mögulegt sé að fylgja eftir reglum um ráðstöfun landeigna. Þau lög sem í gildi eru og fjalla um skráningu eignarmarka eru svo að segja úrelt þar sem tölvur og nútímamælitæki voru ekki komin til sögunnar þegar þau voru samin. Þar er t.d. átt við Jónsbók, tölvur voru ekki komnar til sögunnar þá. Flutningsmenn taka undir það og telja brýnt að endurskoðun regluverks sem snýr að skráningu landeigna og eignarmarka fari fram sem allra fyrst og í kjölfarið verði gert átak í vinnu Þjóðskrár Íslands við skráningu og uppmælingu landeigna, sér í lagi í dreifbýli.

Fimmta aðgerðin snýst um að fasteignamat í dreifbýli verði uppfært en mögulegt væri að nýta skattlagningu til að hafa áhrif á nýtingu fasteigna. Mætti t.d. beita fasteignaskatti í dreifbýli sem hvata til nýtingar. Forsenda þess er bætt skráning landeigna og uppfært fasteignamat, en dæmi er um að fasteignamat jarða hafi ekki verið uppfært í áratugi.

Þá snýst sjötta aðgerðin um að komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa. Þar er lagt til að útfærður verði lánaflokkur sem láni einungis til jarðakaupanna sem slíkra, ekki til húsnæðis eða rekstrar. Slíkur sjóður gæti þá í sumum tilfellum í raun átt jörðina en afborganir stæðu einungis undir arðsemiskröfu af fjárfestingunni í landi.

Sjöunda aðgerðin snýst um að lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi framkvæmdarinnar. Áherslur í þeirri endurskoðun þurfa að ráðast af framkvæmd annarra aðgerða í áætluninni og þá þarf m.a. að horfa til endurskoðunar á markmiðum um eignarhald ríkisins á jörðum, ábyrgðar og skyldna sem fylgja eignarhaldi á landi, skyldna þegar margir eiga saman jarðir og ráðstöfunar hlunninda og tekna af þeim til nærsamfélagsins, hvort sem það er til ábúenda, sveitarfélaga eða bara til ríkissjóðs. Það er ljóst að ýmislegt í gildandi löggjöf er í raun ekki í takti við þær breytingar sem orðið hafa á landnýtingu á síðustu árum.

Þá hef ég gert grein fyrir aðgerðunum sjö í tillögunni og legg til að málinu verði vísað til atvinnuveganefndar. Ég hvet nefndina til að ganga hratt til verka í umfjöllun um málið. Það er mjög mikilvægt að fyrstu skrefin í framfylgd áætlunarinnar verði stigin sem fyrst því að það þarf að byrja að púsla saman betri umgjörð um landið, um jarðir og auðlindir á landi, til að reglur, framkvæmd og eftirfylgni batni. Góð og ígrunduð stjórnun lands og eigna er einn af grundvallarþáttum í efnahagslegri þróun samfélaga og sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og því óhjákvæmilegt verkefni stjórnvalda. Ekki má ríkja sinnuleysi á þessu sviði eins og hefur að mörgu leyti verið á síðustu árum.