150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

aðgerðaáætlun í jarðamálum.

20. mál
[17:24]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni, Líneik Önnu Sævarsdóttur, kærlega fyrir. Þetta er alveg ágætismál en ég hef þó nokkrar spurningar. Ég fór ekkert mjög djúpt í greinargerðina en staldraði samt við aðgerðaáætlunina sem hér er kynnt til sögunnar. Mig langar fyrst að byrja á þeirri pælingu sem kemur fram í punkti nr. 1 þar sem segir að lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila. Þarna velti ég fyrir mér hvort það hafi einhver áhrif ef jarðir eru sameinaðar, hvort jarðastærð skipti einhverju máli eða hvort lagt sé til að þau atriði verði tekin út fyrir sviga.

Seinni spurning mín núna er um punkt nr. 5 þar sem er talað um að fasteignamat í dreifbýli verði uppfært. Þá velti ég fyrir mér hvort hér sé ætlunin að leggja til hækkun á fasteignamati á landi sem er ekki nýtt. Þetta gæti þýtt álögur á landeigendur og kannski hvatt þá frekar en latt til að selja. Ég læt þetta duga í fyrsta kasti.