150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Óvenjumikill lyfjaskortur er í landinu í dag og yfir 100 lyf skortir. Forstjóri Lyfjastofnunar, Rúna Hauksdóttir Hvannberg, sagði að landsmenn þyrftu að sætta sig við viðvarandi lyfjaskort. Það kom fram í fréttum Stöðvar 2. Hvar erum við stödd? Hvar erum við stödd ef heilbrigðiskerfið okkar stendur þannig núna að við þurfum að sætta okkur við viðvarandi lyfjaskort í landinu? Hver er ábyrgur fyrir þessu? Hvernig stendur á öllu þessu? Þetta er algerlega óviðunandi.

Í kvöldfréttum RÚV var rætt við konu með alvarlegan taugasjúkdóm sem fær ekki nauðsynleg lyf. Það kom fram að hún er að fá krampa og alls konar einkenni og þarf að taka þessi sérstöku lyf þrisvar, fjórum sinnum á dag. Nei, þau eru ekki til, því miður, þannig að hún er með alvarlegan taugasjúkdóm en fær ekki þessi lyf. Hún lýsti mikilli vanlíðan sem fylgir því og furðar sig á því fyrirkomulagi að heildsalar lyfja séu með líf sjúklinga í lúkunum. Ég furða mig á því líka og ég hefði haldið að árið 2019 ættum við frekar að vera að fara fram á við. Við ættum frekar að eflast í heilbrigði en að vera komin í bakkgír. Ég efast um að við getum fundið annan eins og þvílíkan lyfjaskort þótt við leituðum tugi ára aftur í tímann með logandi ljósi. Betur má ef duga skal og ég ætla að vona að við verðum ekki hér á næsta ári að tala um að það vanti 200 lyf. Ég ætla frekar að vona að það verði komið niður í tíu, eða bara hreinlega núll. Það væri náttúrlega betra.