150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Bráðveikir á hrakhólum hafa verið til umræðu að undanförnu, þ.e. þeir sem sækja heim bráðamóttöku Landspítalans. Þetta er ekki ný umræða, hún er gömul, margendurtekin. Fagfólk og allt starfsfólk spítalans starfar undir miklu álagi og vinnur störf sín af krafti og metnaði, eins og raunar allt starfsfólk í heilbrigðisþjónustu. Það á skilið miklu meira lof og umbun en það fær og skerðingar á kjörum þess hljóma eins og hver önnur fjarstæða í samhengi hlutanna í dag. Ég þekki þetta af eigin raun eftir áratugaþátttöku sem stjórnandi í heilbrigðisþjónustu. Rekstrarvandinn og mönnunarvandinn er umtalsverður í dag, enn á ný, og vitaskuld mestur á Landspítala, þjóðarsjúkrahúsinu, sem er líka bæjarspítali Reykjavíkur. Flest bendir raunar til að opinber heilbrigðisþjónusta sé verulega undirfjármögnuð og útdeiling peninga ómarkviss.

En svo verður kúvending þegar við snúum okkur að einkageiranum, eins og hann er ágætur. Allur einkageirinn er kostnaðargreindur í smáatriðum, verðmiði á allri þjónustu. Það á jafnt við um röntgenstofur, blóðrannsóknarstofur, sjúkraþjálfara, stofur sérfræðilækna og einkareknar heilsugæslustöðvar. Allt er greitt samkvæmt unnum verkum og innsendum reikningi. Á það sem sagt ekki við um Landspítala? Nei. Eða Sjúkrahúsið á Akureyri? Nei. En hvað um aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu í eigu hins opinbera? Nei, nei, þessar stofnanir allar fá eina línu í fjárlögum, eina tölu, og stjórnendur leggjast síðan nánast á bæn um allt sleppi nú til næstu 12 mánaða.

McKinsey benti á í vandaðri skýrslu fyrir þremur árum að þetta gengi ekki upp og löngu væri tímabært að snúa við blaðinu, bæði skilgreina hlutverk Landspítalans betur, kostnaðargreina verkþætti og borga spítalanum í samræmi við það. Sátt þurfi að gera um hvað eigi heima á öðrum stigum í heilbrigðisþjónustunni, á heilsugæslunni t.d. eða á nágrannasjúkrahúsum. Hætta að prjóna við kerfið fríhendis.

Nú liggur fyrir heilbrigðisstefna. Frumvarp til fjárlaga liggur líka fyrir (Forseti hringir.) og við blasir gamalkunnug snjáð mynd: Halli víðast hvar í opinbera heilbrigðiskerfinu, rekstraróvissa.(Forseti hringir.)

Herra forseti. Það er einfaldlega ótækt að opinberar heilbrigðisstofnanir fái ekki að sitja við sama borð og þær einkareknu. Þetta er óviðunandi sleifarlag.