150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Á föstudaginn var varð ég þess heiðurs aðnjótandi að hlýða á sænsku baráttustúlkuna Gretu Thunberg ávarpa 250.000 aðgerðasinna í Battery Park í New York. Í ræðu sinni talaði Greta fyrir raunverulegum aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum eins og hún hefur gert síðasta árið með stórkostlegum árangri og í ræðu sinni gaf hún lítið fyrir þjóðarleiðtoga sem gerðu það eitt að biðja um sjálfur með henni og tala um aðdáun sína á baráttu hennar. Greta sagðist enga aðdáun þurfa frá þjóðarleiðtogunum, hún vildi raunverulegar og áhrifaríkar aðgerðir strax til að bregðast við þeirri alvarlegu vá sem að jörðinni steðjar.

Ég gæti ekki verið meira sammála.

Virðulegur forseti. Píratar setja umhverfismál og aðgerðir í loftslagsmálum í forgang á þessu þingi, rétt eins og því síðasta. Okkar fyrsta mál var að efla aðkomu almennings að vernd náttúrunnar með því að leggja til að umhverfissamtök hefðu sterkari réttarstöðu þegar kæmi að því að bregðast við þegar framkvæmdir standa fyrir dyrum og gætu þar með kært ákveðnar framkvæmdir til dómstóla ættu þeir aðild að máli fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í dag munu Píratar mæla fyrir máli um árangurstengingu kolefnisgjalda sem leggur það til að kolefnisgjald hækki og lækki eftir því hversu vel okkur gengur að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um minnkun útblásturs. Að lokum munu Píratar leggja fram sem sitt þriðja forgangsmál grænan sáttmála, pólitískan sáttmála sem gengur út á það að Ísland fari í raun og sann að beita sér bæði heima og alþjóðlega í víðtæku samráði fyrir því að aðgerðir í loftslagsmálum verði teknar alvarlega, það verði farið í þær strax og það gert vel í samstarfi við aðrar þjóðir. Auðvitað er best að byrja fyrst hér heima og það viljum við Píratar gera í samstarfi við allan þingheim.