150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[14:33]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef eiginlega aldrei frá því að ég kom á hið háa Alþingi upplifað aðra eins ósvífni og þessa frá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni. Þetta mál, skattleysi launatekna undir 350.000 kr., sem hefur verið flutt tvisvar var flutt af þáverandi þingflokksformanni Flokks fólksins sem var vikið úr Flokki fólksins eftir að hafa setið með allnokkrum núverandi félögum sínum á Klausturbar, sællar minningar. Flokkur fólksins greiddi hátt í 1 millj. kr. fyrir þá útreikninga sem fylgdu þeirri tillögu. Við vorum eðli málsins samkvæmt flutningsmenn með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni sem félagar hans í Flokki fólksins þá. Ég veit ekkert á hvaða vegferð hv. þingmaður er þegar hann kemur með þessar dylgjur. Ef við í Flokki fólksins þurfum að fara að leita samninga í sambandi við mál sem við höfum alfarið unnið og greitt fyrir held ég að fokið sé í flest skjól. Ég efast um að Miðflokkurinn kærði sig um að við værum að hirða af honum mál sem hann hefði greitt sérfræðingum fyrir að koma á laggirnar. Mér þættu það afskaplega undarleg vinnubrögð. (Gripið fram í.)