150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

9. mál
[14:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu Flokks fólksins um skattleysi launatekna undir 350.000 kr. Í sjálfu sér erum við ekki að tala um annað á mannamáli en að þeim gígantísku skattahækkunum sem hafa dunið á launafólki frá 1988 verði skilað til baka. Staðreyndin er sú að við upphaf staðgreiðslu, árið 1988, borguðu þeir sem voru á lægstu launum enga skatta. Það er eiginlega með ólíkindum hvernig launataxtar eru hjá almennu launafólki. Inni á vef VR eru launataxtar fyrir 14 ára unglinga upp á 178.000 kr. á mánuði og fyrir 17 ára unglinga upp á 255.000 kr. á mánuði sem eru laun yfir meðallífeyrislaunum flestra öryrkja sem eru um 247.000 kr. og skila ekki nema 215.000 kr. eftir skatt. Byrjunarlaun í verslunum hjá VR eru 287.408 kr. á mánuði og eftir fimm ár 315.264 kr. Það er vel undir þeim 350.000 kr. sem við erum að tala um að eigi að vera skattlaus laun sem sýnir fram á það hversu fáránlega mikið lægstu laun hafa setið eftir.

Það er búið að setja upp kerfi um það hvernig á að hækka launin og það eru svokallaðir lífskjarasamningar. Á vef ASÍ kemur fram að 1. apríl 2019 eigi lágmarkslaun að vera 317.000 kr. en árið 2022 eiga þau að vera komin í heilar 368.000 kr. Það eru nú öll ósköpin. Við þurfum aldeilis að taka okkur á bara til að ná launum upp í það sem við erum að tala um að ættu að vera útborguð lágmarkslaun, skattlaus í dag ef rétt væri gefið.

Við gleymum því oft með 300.000 kr. lágmarkslaun að þeir sem eru á lægstu laununum í dag fá útborgað, eftir að búið er að taka skatt og draga frá önnur gjöld, um 230.000 kr. Það segir sig sjálft að það er ekki beysið fyrir tvo einstaklinga á lægstu launum, með 460.000 kr. á mánuði samtals, að lifa af því. Í flestum tilfellum borgar þetta fólk 50–70%, jafnvel yfir það, af þessum launum í húsaleigu. Um 200.000 kr. húsaleiga er 50% af þessum samanlögðu launum. Þá er eftir að borga allt hitt.

Svo er persónuafslátturinn. Við breytum honum þannig að hann gangi ekki upp allan stigann. Við gerum okkur grein fyrir því að fyrir þá sem eru á hæstu laununum, 2–3 milljónum, skiptir persónuafsláttur upp á rúmar 50.000 kr. engu máli. Hann er svo lítil prósenta af launum þeirra að það væri ósköp eðlilegt að einstaklingar á svo háum launum væru ekki með neinn persónuafslátt. Þess vegna leggjum við hér til að byrja að skerða persónuafsláttinn við 575.000 kr. Þeir sem eru þar undir fá mest út úr breytingunum með tillögunni og þeir sem eru þar fyrir ofan skerðast smátt og smátt. Við 970.000 kr. mánaðartekjur verður vendipunktur þar sem persónuafsláttur fellur niður. Þannig myndu flestir þingmenn lenda í þeim hóp sem fengi ekki persónuafsláttinn. Það væri mjög ásættanlegt ef það myndi skila sér til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda.

Flokkur fólksins hefur staðið að þessari þingsályktunartillögu frá upphafi. Þingsályktunartillagan og hugmyndafræðin á bak við hana var komin fram löngu áður en hv. þm. Ólafur Ísleifsson var kominn í Flokk fólksins. Þessi tillaga var þegar komin fram og hún var löngu áður komin á dagskrá. Það fer ekkert á milli mála og er alveg skýrt að það er Flokkur fólksins sem kom þessu máli á dagskrá. Það er Flokkur fólksins sem lét reikna út og gera vandaða skýrslu um hvað þetta myndi kosta og það er Flokkur fólksins sem borgaði fyrir þá skýrslu. Þess vegna er alveg stórfurðulegt að Miðflokkurinn eigni sér málið og sú umræða sem Þorsteinn Sæmundsson hefur beitt í pontu um að Flokkur fólksins sé að ræna einhverju frá einhverjum er svo langt út úr kortunum að það er með ólíkindum.

Viðkomandi hv. þingmaður ætti að líta í eigin barm þegar hann horfir aftur til þess tíma þegar hann var með nefnd um svokallaða endurskoðun almannatrygginga. Hverjir sátu þá eftir? Hverjir fengu krónu á móti krónu burt? Hverjir sátu eftir og fengu ekki krónu á móti krónu burt? Það voru öryrkjar. Þegar menn segjast vera að berjast fyrir þá sem verst hafa það er alveg á hreinu að Flokkur fólksins var stofnaður til þess og einbeitir sér að því einu að berjast fyrir þá sem hafa það verst í þessu þjóðfélagi, eldri borgara, öryrkja og láglaunafólk. Við munum halda því áfram og hikum ekki eina sekúndu við að leggja fram mál sem er okkar mál frá A til Ö og hefur alltaf verið. Einstakir þingmenn hafa orðið uppvísir að ótrúlegri framkomu á bar á sama tíma og fjárlög voru rædd í þessum sal og við rákum þá úr flokknum vegna þess að við höfðum klásúlu í reglum flokksins til að reka þá. Þar af leiðandi er mjög undarlegt að sömu einstaklingar ætli síðan að skreyta sig með þeim fjöðrum sem Flokkur fólksins á og hefur borgað fyrir. Það er ekki boðlegt.

Þetta er gott mál og vonandi nær það fram að ganga vegna þess að það skiptir fólk á lægstu launum gífurlegu máli þannig að það eigi smámöguleika á því að lifa á mannsæmandi kjörum. Við ættum að einbeita okkur að því frekar en þeim undarlega áburði að einhverjir séu að stela einhverju.