150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

betrun fanga.

24. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fagna því að fá tækifæri til að skerpa á því sem ég hef ekki verið nægilega skýr með í framsöguræðu minni. Við erum að tala um heildstæða betrunarstefnu stjórnvalda, vissulega, en sem innihaldi einmitt einstaklingsbundnar betrunaráætlanir, að þær séu sniðnar að þörfum hvers fanga en ekki að einhver ein samræmd formúla eigi yfir alla ganga.

Það er auðvitað ágætt sem hv. þingmaður minnist á, eins og það að bæta heilsu sína, stunda líkamsrækt o.s.frv. Það skiptir allt saman máli. Þarfir fanga í þessu tilfelli eru mjög misjafnar. Sumir fangar kunna að þurfa á mjög ríkri þjónustu sálfræðings að halda, sem hefur verið gagnrýnt mjög lengi að sé af mjög skornum skammti í íslenskum fangelsum. Sumir þurfa mögulega aðstoð félagsráðgjafa, sumir þurfa kannski sterk menntunarúrræði o.s.frv. Margir eiga við vímuefnavanda að stríða og þurfa kannski þess vegna mjög á heilsueflandi stuðningi að halda. En hugsunin er einmitt sú að þetta sé einstaklingsmiðuð nálgun út frá þörfum hvers og eins fanga. Þau atriði sem nefnd eru í greinargerðinni eru á engan hátt tæmandi upptalning á þeim úrræðum sem slíkar áætlanir kynnu að innihalda. Ég myndi bara fagna því í umfjöllun nefndarinnar ef þar væri skerpt enn frekar á mismunandi úrræðum sem mögulega þyrfti á að halda.