150. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2019.

betrun fanga.

24. mál
[16:42]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið en vil ítreka að heildstæð betrunarstefna og framboð á þjónustu og forvörnum hlýtur að vera yfirregnhlífin yfir öllu og svo getur þurft einstaklingsáætlanir en ekki endilega fyrir hvern einasta, heldur út frá því hvort grunnþjónustan sé nægilega góð.

Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn þekki til þess að í kerfinu núna sé eitthvert framboð á t.d. kennslu í líkamsrækt eða námskeiðum, ekki sem hluti af formlega skólakerfinu heldur til að rækta t.d. geðheilbrigði eða ná betri sjálfsþekkingu í gegnum t.d. námskeið eins og HAM eða eitthvað slíkt. Sumt sem gæti verið flokkað sem afþreying á einum stað getur haft mikilvægt forvarna- og mannræktargildi í þessu samhengi. Þarf ekki að reyna að horfa mjög vítt á þetta mál í umfjölluninni?