150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið. Eftir því sem ég þekki best til hafa dvalarheimili ekki verið byggð upp nýlega og ég hugsa að við gætum talað jafnvel í áratugum. Líkt og hv. þingmaður kom inn á hefur dvalarrýmum verið breytt í hjúkrunarrými. Ég held reyndar að að einhverju leyti sé það vegna breytts samfélag. Það er meiri krafa um að fólk fái að vera heima hjá sér og búa í sínu umhverfi sem lengst. Við erum farin að veita miklu meiri þjónustu inni á heimilum en við gerðum áður þegar dvalarrýmin voru í meiri notkun.

Mér finnst samt ástæða til að halda því á lofti hvort engu að síður sé í einhverjum tilfellum þörf fyrir dvalarrými. Þá má velta fyrir sér, eins og ég kom inn á í öðru andsvari áðan, hvort við erum að tala um eitthvað annað. Við erum meira að tala um búsetukjarna, eins og við þekkjum í málefnum fatlaðs fólks, að það sé meiri sjálfstæð búseta, raunveruleg íbúð til að taka það burt sem oft er kallað stofnanabragur, en aðgengi að þjónustunni er meira.

Ég þekki vel í mínum heimabæ að við vorum annars vegar með stofnanir fyrir fatlað fólk eins og Tjaldanes og svo Skálatún og mig langar að nefna þá umbreytingu sem hefur orðið í áherslum og því hvernig við ræðum um þessa málaflokka. Nú má ekki lengur tala um stofnanir, við tölum um búsetu og sjálfstæða búsetu. Ég held að það sé að einhverju leyti mjög gott en það sem ég er að benda á er að mér finnst við stundum fara of langt eða vera of ýkt þegar við breytum einhverju. Nú er eins og allir þurfi að fara í NPA þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks. (Forseti hringir.) Ég held að stóra málið snúist svolítið um að einstaklingar í samfélagi okkar eru svo misjafnir, hvort sem þeir eru ungir, gamlir, búa við fötlun eða annað, og við þurfum að vera með fjölþættar lausnir til að sinna þörfum þeirra.