150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

kynning og fjármögnun samgönguframkvæmda.

[10:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Samgönguáætlun heimilaði ekki þau stórkostlegu fjárútlát til langrar framtíðar, sem hafa verið kynnt einhverjum þingmönnum, og ekki þá aðferð sem boðuð hefur verið. Hæstv. fjármálaráðherra virðist hafa sínar hugmyndir sem hann lýsti hér áðan um hvað borgarlína sé. Þær hugmyndir virðast vera mjög ólíkar því sem Samfylkingin og núverandi borgarstjóri kynntu í kosningabaráttu sinni. Það er þá spurning hvað verður ofan á, annaðhvort þessar hugmyndir eða eitthvað allt annað. Aðalatriðið er þetta: Verið er að undirrita samkomulag um eitthvað sem enginn veit hvað er og á að kosta tugi milljarða og líklega á endanum langt yfir 100 milljarða og jafnvel hátt í 200 milljarða. Enginn veit hvernig þetta á að vera, en samt á að undirrita samkomulag og ekki á einu sinni að sýna þinginu það áður en það er undirritað. Fara á í gjaldtöku, refsigjöld vegna umferðartafa, fyrir þá sem í töfunum lenda, en enginn virðist vita hvernig á að framkvæma það. Samt á að undirrita það án þess að hleypa þinginu að því eða sýna þinginu svo mikið sem samningsdrögin sem til stendur að undirrita síðar í dag.