150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[16:50]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Óli Björn Kárason, nefndarformaður efnahags- og viðskiptanefndar, fór ágætlega yfir efnisatriði málsins og nefndarálit með breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar. Mig langar samt sem áður að grípa aðeins niður í greinargerð málsins þar sem fram kemur t.d. að Ísland gekk til samstarfs við FATF árið 1991 og með því skuldbundum við okkur til að samræma löggjöf og laga starfsreglur að tilmælum þessara samtaka. Ef ríki innleiða ekki tilmæli um að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka fá þau venjulega frest til að gera úrbætur. Ef það er ekki gert fara ríki á svokallaðan gráan lista sem getur haft víðtæk áhrif á fjármálakerfi þeirra í heild sinni og trúverðugleika á alþjóðavettvangi. Það skiptir almannahagsmuni mjög miklu máli að við stöndum okkur í þeim úttektum og gerum þær úrbætur sem kallað er eftir. En vissulega, eins og þingmenn hafa nefnt, er málsmeðferðin á málinu ekki góð. Hraðinn er of mikill og upplýsingar t.d. hafa ekki komist áfram til þeirra félaga sem þessar breytingar á löggjöf beinast að. Það er ekki gott.

Að því sögðu vil ég undirstrika það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um með hvaða hætti hægt er að koma til móts við þessa ágalla á málsmeðferðinni. Ég ætla að grípa niður í lok nefndarálitsins þar sem stendur að heimildin sé í höndum dómara. Nú er ég að tala um 14. gr., afsakið, ég er aðeins að hugsa fram fyrir mig. Meiri hlutinn leggur til að skýrt sé að það sé eingöngu heimild dómara að leggja bann við starfsemi félaga til bráðabirgða. Meiri hluti nefndarinnar talar um að 2. mgr. 14. gr. feli í sér verulegt og íþyngjandi inngrip í rekstur félags. Mikilvægt sé að slíkri heimild verði ekki misbeitt í öðrum tilgangi en til er ætlast. Svo heldur þetta áfram og segir einnig:

„Meiri hlutinn telur rétt að setja beitingu heimildarinnar þrengri skorður og leggur til að beiðni um beitingu hennar geti aðeins stafað frá ríkissaksóknara en að vísun til ráðherra falli brott úr ákvæðinu. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að skilyrði þess að bráðabirgðabann megi leggja á sé að rökstuddur grunur sé um að félag brjóti ella verulega gegn lögum eða skilgreindum tilgangi sínum.“

Þetta er alveg skýrt.

Í greinargerðinni með málinu, á bls. 11, er einnig fjallað um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ákvæði frumvarpsins samræmast stjórnarskrá Íslands en frelsi manna til að stofna og ganga í félög er verndað af 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Í frumvarpinu er ekki að finna takmarkanir á rétti manna til að stofna og ganga í félög en það hefur að geyma reglur um þau félagasamtök sem falla innan gildissviðs þess, þ.e. félög til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri.“

Það segir einnig, með leyfi forseta:

„Reglur frumvarpsins eru einnig í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, t.d. EES-samninginn, en í því sambandi má nefna að Evrópusambandið hefur stefnt að setningu sérstakra reglna um frjáls félög og sjálfseignarstofnanir. Setning þeirra reglna hefur þó dregist af ýmsum ástæðum.“

Svo er aftur nefnt að frumvarpið sé í samræmi við kröfur FATF.

Ríkisskattstjóri heldur utan um mjög góða félagaskrá og okkur var tjáð á fundi nefndarinnar að hún væri mjög góð og að þau teldu að lítið mál væri að laga hana til. Í frumvarpinu er lagt til að félög til almannaheilla sem safna og útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri verði skráð í fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir og haldin verði aðgreinanleg skrá um framangreind félög. Það að aðgreina þá skrá með þessum tilteknu félögum frá öðrum ætti ekki að vera mjög flókið, var okkur tjáð. Ég segi aftur að þrátt fyrir að það liggi í augum uppi og við þurfum ekki að deila um það að málsmeðferðin sé náttúrlega ekki nógu góð hefur meiri hluti nefndarinnar brugðist við með nefndaráliti sem tryggir ákveðin réttindi og meðalhóf varðandi 14. gr. frumvarpsins sem ég tel vera fullnægjandi. Ég tel að hagsmunum okkar sé betur borgið með því að bregðast svo hratt við til að koma til móts við þessar úrbætur frekar en að gera það ekki. Það segir í greinargerðinni að það gæti haft mjög alvarleg áhrif fyrir okkur, á trúverðugleika okkar út á við. Það er ekki gott.

Varðandi félögin tel ég að málið eins og það er útfært og eins og meiri hluti nefndarinnar afgreiðir það muni ekki skaða þau eða vera verulega íþyngjandi fyrir þau. Ég tel svo ekki vera. Það kemur fram að þeim verði gefinn tími og þau aðstoðuð og annað slíkt til að koma til móts við þær viðbótarkröfur sem lagðar eru til með þessum lagabreytingum, sem ég held að séu sanngjarnar og tryggi réttindi félaganna og félagsmanna.

Að því sögðu, frú forseti, lýk ég máli mínu.