150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[17:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem, eins og endurtekið hefur komið fram, ber mjög brátt að. Það fjallar um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri. Slík félög eru sögð 261 talsins en sú tala, listi yfir félögin sem þessi lög eiga að ná yfir, var að sögn fengin með því að ríkislögreglustjóri framkvæmdi ákveðið mat. Einhvern tíma hefur þetta mat tekið og í einhvern tíma hefur legið fyrir hvaða félög þurfa nú að sæta strangari skilyrðum og eiga á hættu á að sæta mjög íþyngjandi lagaákvæðum um slit félags, bráðabirgðabann á starfsemi félagsins og fangelsisrefsingu við ákveðnum athöfnum á aðalfundi félagsins. Þrátt fyrir þessa ítarlegu greiningarvinnu má ekki segja þessum félögum að þau verði nú skráningarskyld sem félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri. Það má ekki láta þau vita af því að þau séu núna slík félög áður en þessari löggjöf er rumpað í gegnum þingið á sólarhring.

Aðdragandi þessa máls er að stofnunin FATF, Financial Action Task Force, skilaði mjög svartri skýrslu um stöðu Íslands gagnvart vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi fyrir ári síðan. Þar voru listaðar upp margar aðgerðir og bera stjórnvöld nú fyrir sig að þau hafi brugðist mjög hratt við þeim ábendingum, unnið þennan lista mjög mikið niður og að sú krafa um að nákvæmlega svona lög þyrfti að setja á Íslandi hafi ekki legið ljós fyrir fyrr en fyrir um mánuði síðan. Síðan hafi farið dágóður tími í að andmæla því að Ísland þyrfti að setja lög sem þessi.

Þetta er orðræðan sem við heyrum um hvers vegna við þurfum að afgreiða þetta frumvarp á sólarhring. Á engum tímapunkti datt Stjórnarráðinu í hug að mögulega væri gáfulegt að ræða aðeins við félögin sem um ræðir, nú eða stjórnarandstöðuna, á þeim tíma sem þau voru að andmæla því að það þyrfti að setja svona lög. Það er af þeim orsökum sem ég andmæli því að enginn tími hafi gefist til að gera þetta. Þó að við þurfum kannski að gera eitthvað sem hefur afgerandi áhrif á félagafrelsi á Íslandi gefur það okkur ekki afsökun fyrir því að aðhafast ekki neitt og grípa ekki til nokkurra fyrirbyggjandi aðgerða eða nokkurs sem mun einmitt gefa gott veður, eins og talað hefur verið um, í umræðum um þetta mál og málið sem kom hingað á undan. Það gefur enga afsökun til að vinna ekki fram fyrir sig og leita samráðs við þá aðila sem lögin eiga að ná yfir, við þá sem hafa eitthvert vit á félagafrelsi og hvort þessi lagasetning sé nauðsynleg til að uppfylla skilyrði FATF en verndi á sama tíma réttindi félagasamtaka. Þetta var ekki gert og þess vegna er ég algjörlega andsnúin því að þetta mál sé afgreitt hér á sólarhring þrátt fyrir að afleiðingarnar gætu verið að FATF lýsi því yfir að við skulum vera á gráum lista yfir ósamvinnuþýð ríki eða eitthvað slíkt. Afleiðingarnar eru óljósar.

Ég held því fram að þetta gefi mjög vont fordæmi um hagsmunamat innan þingsins. Við erum að setja íþyngjandi reglur og ég verð að lýsa mig algerlega ósammála því sem stendur í greinargerð frumvarpsins um samræmi við stjórnarskrá. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ekki að finna takmarkanir á rétti manna til að stofna og ganga í félög en það hefur að geyma reglur um þau félagasamtök sem falla innan gildissviðs þess …“

Frumvarpið hamlar vissulega ekki rétti manna til að stofna og ganga í félög nema kannski ef við horfum á reglugerðarheimild ráðherra sem ég er ekki búin að fá neinn tíma til að rýna í, en þar stendur t.d. að ráðherra hafi reglugerðarheimild til að setja gjald fyrir stofnun slíkra samtaka. Gæti það ekki verið þess valdandi að hamla möguleikum fólks á að stofna slík félög? Hvað ef ráðherra ákveður að setja 150.000 kr. gjald eða jafnvel milljón króna gjald fyrir að gera nákvæmlega það? Annað eins hefur nú gerst í ríkjunum í kringum okkur. Í Evrópuráðinu sjáum við víða löggjöf sem fær þann titil að vera vegna baráttunnar við hryðjuverkaógn og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi en er notuð til að berja á samtökum sem eru ekki yfirvöldum að skapi

Í umræðum um þetta mál innan nefndarinnar hefur því verið haldið fram að það sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að þessi lög verði misnotuð í slíkum tilgangi í réttarríkinu Íslandi. Hér séu dómstólar og réttarríki og því sé engin ástæða til að hafa áhyggjur. Mig langar í því samhengi að minna á að það eru ekki nema tvö ár síðan íslensk stjórnvöld settu lögbann á fjölmiðil sem var að fjalla um fjármálastarfsemi þáverandi forsætisráðherra, tveimur vikum fyrir kosningar, og það leið mjög langur tími þangað til dómstóll komst að þeirri rökréttu niðurstöðu að lögbannið gæti hafa haft áhrif á lýðræðislegar kosningar á Íslandi. Það var nú allt réttarríkið. Þetta fékk samt að gerast. Vissulega búum við svo vel á Íslandi að við höfum sjálfstæða dómstóla, þó að einnig megi spyrja sig spurninga um það í ljósi dóms Mannréttindadómstólsins. Vissulega búum við betur en mörg þeirra ríkja sem akkúrat núna er sökuð um að nota nákvæmlega svona löggjöf til að frysta eignir, leysa upp og berja á félagasamtökum sem eru þyrnir í augum yfirvalda af einni eða annarri ástæðu. Þetta er vel þekkt.

Þess vegna gengur ekki, virðulegur forseti, að setja svona löggjöf á einum sólarhring. Það má vel vera að frumvarpið uppfylli meðalhófsskilyrði fyrir því að skerða borgararéttindi en við höfum ekki fengið nokkurn tíma til að meta það. Þegar það er metið, því að vissulega má setja skorður, það má setja á skráningarskyldu og gera alls konar hluti til að skerða félagafrelsi á Íslandi, þarf að gæta meðalhófs. Við höfum ekki fengið nokkurt færi á því að meta hvort þetta frumvarp standist meðalhóf. Nær frumvarpið yfirlýstu markmiði sínu? Er nauðsynlegt að setja nákvæmlega þessi ákvæði í lög til að það nái markmiði sínu? Við höfum ekkert færi fengið til að kanna hvort aðrar leiðir hefðu verið færar, hvort hægt er að vera með minna íþyngjandi reglur. Við höfum ekki fengið færi á því að kynna okkur nákvæmlega hvers konar eftirliti þessar stofnanir eiga að sæta. En við vitum að ríkislögreglustjóri á að framkvæma áhættumat á því hvaða félög á Íslandi eru líkleg til að vera misnotuð til að greiða fyrir hryðjuverkastarfsemi. Þessi félög vita það samt ekki enn þá. Þau fá væntanlega ekki að vita það fyrr en eftir að búið er að gera frumvarp um þau að lögum.

Þetta er einn af helstu gagnrýnispunktum mínum. Ég vil telja meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar það til tekna að hafa brugðist við áhyggjum og athugasemdum, þar á meðal þeirrar sem hér stendur, gagnvart 14. gr. í frumvarpinu er varðar bráðabirgðabann við starfsemi félags þar sem kemur fram að ráðherra geti farið fram á bráðabirgðabann við starfsemi félags og hefur til þess allt of rúm skilyrði miðað við þær virkilega íþyngjandi afleiðingar sem slík aðgerð myndi fela í sér. Það er vissulega gott að sjá orðin „rökstuddur grunur“ í breytingu nefndarinnar á þeirri grein. Ég fagna því.

Það breytir því þó ekki að við höfum ekki getað metið hvað þessi reglugerðarheimild felur í sér. Kannski er hún of íþyngjandi, kannski stenst hún ekki meðalhófsregluna. Þetta breytir því ekki að við höfum ekki fengið tækifæri til að meta hvort þörf sé á því að setja inn refsiákvæði við ákveðnum athöfnum á aðalfundi, við höfum ekki fengið neitt tækifæri til að meta hvort það standist meðalhófsregluna. Þá kemur spurningin um hvort þessi lög séu sett í lögmætum tilgangi ef við metum ekki hvort þau standist meðalhófsregluna eða ekki. Við þurfum væntanlega bara að fylgjast með því hvernig reglugerðarheimild ráðherra verður beitt. Ráðherra má samkvæmt frumvarpinu setja, með leyfi forseta, „nánari ákvæði um skráningu félags samkvæmt lögum þessum í almannaheillafélagaskrá, þ.m.t. um skipulag skráningarinnar, rekstur skrárinnar og aðgang að henni og gjaldtöku, m.a. fyrir útgáfu vottorða og afnot af þeim upplýsingum sem skráin hefur á tölvutæku formi.“

Við höfum ekki skoðað viðurlagakaflann að neinu ráði og þótt vissulega sé innsetning orðanna „rökstuddur grunur“ af hálfu nefndarinnar til bóta og að fjarlægja ráðherra úr því ákvæði að geta fyrirskipað bráðabirgðabann við starfsemi félags þá stendur eftir að dómsmálaráðherra getur fyrir dómi slitið félagi, hafi það brotið að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum félagsins. Dómurinn getur líka veitt félaginu áminningu starfi það ekki samkvæmt sínum samþykktum. Ég hef ekki fengið að heyra frá þeim sem munu verða fyrir þessari lagasetningu. Ég hef einungis fengið að heyra frá þeim sem standa fyrir lagasetningunni og get þar af leiðandi ekki lagt mat á það hvort það sé rétt að ekkert sérstakt eftirlit verði haft með þeim félögum umfram það sem eðlilegt getur talist í ljósi þessarar löggjafar, um hvort þau starfi eftir tilgangi sínum sem skráður er í samþykktir félagsins. Ég bara veit það ekki.

Að lokum langar mig að tala aðeins um forgangsröðun. Í fyrsta lagi hefði aldrei þurft að vera svona mikill asi á þessu máli. En fyrst það er svona mikill asi á málinu þarf að fara fram ákveðið hagsmunamat. Hér erum við að ræða um stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna til félagafrelsis annars vegar og ávítur og mögulega óþægilegar afleiðingar fyrir viðskiptalífið á Íslandi hins vegar. Þegar við framkvæmum hagsmunamat og metum hvort vegi þyngra, að við séum með óþarflega freklegum eða jafnvel ólögmætum hætti að grípa inn í félagafrelsi borgaranna og gefa okkur tíma til þess, eða að við hlaupum til og skellum á einhverjum lögum án þess að gefa stjórnarandstöðunni nokkurt færi á því að veita lýðræðislegt aðhald, án þess að gefa félögunum sem um ræðir nokkurt tækifæri á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þrátt fyrir að það hefði vel verið mögulegt því að ekki varð þessi listi yfir 261 félag til í einhverju tómarúmi, ekki varð hann til í gær — þá get ég ekki séð að þessi forgangsröðun standist nokkra skoðun. Mér finnst hún vanvirðing við skyldur okkar og eiðstaf okkar að stjórnarskránni. Það er hún sem við eigum að vernda og við þurfum að passa okkur betur á því að gera það miklu betur í framtíðinni en raun ber vitni í þessu máli. Ég afþakka því allt tal um að þetta hefði ekki verið mögulegt fyrr. Það er ekki rétt. Ég vísa því til föðurhúsanna að ekki hafi verið hægt að hafa samráð við okkur í stjórnarandstöðunni. Það er heldur ekki rétt. Ég kalla eftir því að ætli ríkisstjórnin sér, eða Stjórnarráðið, að leika einhverja svona leiki aftur í framtíðinni hugsi hún það aðeins fram í tímann og reyni að vinna sér aðeins betur í haginn en þetta mál ber vitni um.