150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[17:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þingmaður hafi ekki fylgst sérlega vel með ræðu minni, rétt eins og hann er ekki að fylgjast með andsvari mínu nú. Ég hélt því hvergi fram að verið væri að brjóta gegn félagafrelsinu. Ég talaði hins vegar um það, og það er bara rétt hjá mér og rangt hjá hv. þingmanni ef hann heldur eitthvað annað, að hér væri verið að skerða eða setja takmarkanir á félagafrelsi. Þegar það er gert þarf að fara fram mat á því hvort meðalhófsreglan hafi verið virt. Það þarf að gera í lýðræðislegu þjóðfélagi. Mér heyrist ég samt vera að tala fyrir daufum eyrum vegna þess að hv. þingmaður er genginn úr salnum og hefur engan áhuga á að heyra skýringar mínar. En ég vil endurtaka: Þegar við ætluðum að skerða stjórnarskrárbundin réttindi, þegar við ætlum að setja einhvers konar takmarkanir á þau þá þarf að fara fram mat á því hvort það sé nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að gera það, hvort þetta sé sú leið sem við þurfum nauðsynlega að fara, hvort hægt sé að fara einhverjar vægari leiðir. Það þarf að gera nákvæmlega það. Ef við gerum það ekki berum við ekki virðingu fyrir félagafrelsinu. Svo einfalt er það. Það er nú allur sannleikurinn.