150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

ráðherrar til svara í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem gagnrýna það að rétt áður en þingfundur er settur sé sent út hverjir verði í óundirbúnum fyrirspurnum. Þetta eru engan veginn boðleg vinnubrögð. Við erum að reyna að skipuleggja störf okkar. Í aðra röndina er talað um að við þurfum að laga skipulag á þinginu, og forseti hefur tekið undir það, en síðan er ríkisstjórnin svo óskipulögð að hún hendir út nafnalista yfir ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum með nokkurra mínútna fyrirvara. Ég get ekki tekið undir það að sérstök ástæða sé til að hrósa hæstv. ráðherrum fyrir að mæta í óundirbúinn fyrirspurnatíma, en við verðum að fá tíma til að undirbúa okkur. Við í Samfylkingunni vorum búin að undirbúa fyrirspurn til annars þeirra tveggja ráðherra sem var búið að tilkynna að yrðu hér í salnum. Við höfðum hugsanlega viljað eiga orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra en undirbúningstíminn er bara of lítill.