150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

aðgangur að gögnum úr Panama-málinu.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Með allri virðingu næ ég ekki samhengi málsins hjá hv. þingmanni. Hann byrjar á því að ræða lög sem voru samþykkt á Alþingi í gær og tengjast alþjóðlegu samstarfi íslenskra stjórnvalda í FATF-samhengi þar sem við vorum að þétta lög og regluverk vegna hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta er mál sem að uppistöðu til er á forræði dómsmálaráðuneytisins og samstarfið innan FATF er rekið á þeim vettvangi fyrst og fremst. Svo var talað um að málinu hefði verið flýtt í gegn og síðan farið beint í Panama-skjölin. Ég verð bara að játa ég næ ekki öllum þessum milljörðum og öllum þeim fjölda mála sem hv. þingmaður þylur upp samhengislaust og á algjörlega óskiljanlegan hátt.

Ef spurt er hvort hægt sé að fá aðgang að einhverjum tilteknum upplýsingum hvet ég þingmanninn til að leggja fram skriflega beiðni um slíkt. Um það ættu að gilda hinar sömu reglur og almennt gilda um upplýsingagjöf frá stjórnvöldum til þingsins eða almennings, til fjölmiðla ef því er að skipta. Hv. þingmaður lét að því liggja að sá sem hér stendur hafi gert mönnum erfitt fyrir við að kaupa þau gögn en það var þannig að ég hvatti til þess að gögnin væru keypt. Ég tryggði í gegnum ríkisstjórn fjármögnun fyrir kaupum gagnanna og það var algerlega einstakur atburður í skattrannsóknarsögu Íslands að sú ákvörðun skyldi hafa verið tekin á meðan ég gegndi embætti fjármálaráðherra. Sömuleiðis undirritaði ég gagnaskiptasamninga í meira umfangi en áður hefur þekkst í alþjóðlegri samvinnu í skattamálum á Íslandi. Ég vísa því frá mér þeim dylgjum sem hv. þingmaður færir fram í þingsal.