150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir ágæta ræðu. Ég vildi hvetja hv. þingmann til að kynna sér lögfræðiálitið þegar hún var að fjalla um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Aðeins er fjallað um það í greinargerðinni en síðan er alveg sérstakt plagg á heimasíðu ráðuneytisins undir þeim málaflokki. Það er ekki rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, að þjónustan versni og að það sé niðurskurður. Flestar rannsóknir sýna þvert á móti að þjónustan eykst og hún batnar og menn eru að nota þennan fjárhagslega ávinning. Fjárhagslegur ávinningur af þessari aðgerð er upp á 3,5–5 milljarða á ári samkvæmt greiningu frá tveimur sjálfstæðum aðilum sem skoðuðu þetta mál, sem þekkja sveitarstjórnarstigið reyndar mjög vel. Þeir peningar, töluðum við einmitt um í textanum, gætu farið í að auka þjónustuna, bæta þjónustuna, m.a. við börn og ungmenni sem við leggjum áherslu á. Þeir geta líka farið í að lækka skuldir og þar með kostnað sveitarfélagsins þannig að það verði sjálfbærara til lengri tíma og burðugra til að veita þjónustuna.

Ríkisstjórnin er með auga á þrífösuninni sem kom inn en tengist ekki þessu máli. Í byggðaáætlun, sem heyrir undir mig, er horft til þess að þegar ljósleiðaraverkefninu lýkur verði fjármunir notaðir til að flýta enn frekar þrífösun rafmagns. Í orkustefnu og þeim áætlunum sem iðnaðarráðherra er með er einmitt verið að leggja sérstaka áherslu á raforkuöryggi til allra landsmanna.