150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að efni þeirrar spurningar sem hv. þingmaður beinir til mín kemur mér eilítið spánskt fyrir sjónir að því leyti til að ég hef haft tækifæri til að fjalla alllengi opinberlega um ýmis mál, þjóðmál og annað, og hef ávallt lagt mikla áherslu á virka þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Það vill svo til að þegar maður hefur haft með höndum kennslu í hagvísindum við háskóla þá er nemendum mjög snemma gert það ljóst að hagsæld er ekki síst undir því komin að viðskipti takist á milli aðila. Það er mjög lýsandi dæmi sem hægt væri að draga upp hvernig Íslendingum tókst að brjótast úr fátækt eða úr örbirgð til bjargálna og síðar ríkidæmis. Það var vegna þess að þá stóð þannig á hjá okkur að við áttum alltaf opna markaði fyrir okkar afurðir. Ég hef því verið stuðningsmaður samkomulagsins um Evrópska efnahagssvæðið frá fyrsta degi. Það var lagt upp með á sínum tíma að þetta væri fyrst og fremst samkomulag sem hefði það að markmiði að greiða fyrir aðgangi íslenskra afurða inn á samhæfðan og samstilltan evrópskan markað og á þeim grundvelli hef ég stutt það til þessa dags. Ég leyfi mér það hins vegar, (Forseti hringir.) herra forseti, að líta þetta samstarf gagnrýnum augum á hverjum tíma (Forseti hringir.) með það fyrir augum að við getum sem best gætt hagsmuna okkar þegar þeir eru uppi.