150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[16:17]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt mjög en tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og fagna þessu frumvarpi sem kemur eina ferðina enn til þingsins. Í umræðunni hefur verið komið inn á það sem hefur verið gagnrýnt hingað til. Ég sé ekki að það séu miklar breytingar á frumvarpinu. Almannaheillastarf er rekið að miklu leyti til á mikilvægu sjálfboðaliðastarfi og þess vegna er mikilvægt að atriði sem snúa að skilyrðum og viðurlögum séu ekki um of íþyngjandi fyrir almannaheillastarfið. Þess vegna legg ég á það áherslu að hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem fær málið fari mjög vel yfir þessi atriði og lagfæri eftir atvikum. Ég ítreka þó að við þurfum að ná utan um almannaheillastarfsemi og skilgreina og fá heildarlöggjöf eins og þetta frumvarp hér er til að geta stutt enn frekar við og hvatt áfram allt það mikilvæga starf sem fer fram í landinu. Það er til að mynda óhugsandi að við gætum tekið inn á fjárlög allt það starf sem er rekið hér. Ég ætla ekki að telja það upp, virðulegur forseti, en vona að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki málið alla leið í gegnum þingið og taki tillit til allra þeirra athugasemda sem hafa komið fram við málið hingað til og alveg örugglega núna þegar það verður tekið fyrir í nefndinni.