150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Mér finnst við þurfa að gera skýran greinarmun á ólögmætri smálánastarfsemi og öðrum og annars konar neytendalánum. Þótt smálánafyrirtæki sem við vitum að stunda ólögmæta smálánastarfsemi í dag yrðu gerð leyfisskyld og unnt að taka af þeim leyfið myndu þau að öllum líkindum halda áfram að veita ólögmæt smálán rétt eins og þau gera í dag. Þess vegna finnst mér útgangspunkturinn í þessari vinnu vera að reyna að koma hlutunum þannig fyrir að það einfaldlega borgi sig ekki, standi ekki undir sér, að stunda þessa ólögmætu starfsemi. Við erum nú þegar búin að segja að það sé t.d. 50% hámark. Fyrirtækin fara yfir það hámark og það er reynt að elta það uppi en þau finna aðrar leiðir til að halda áfram að bjóða þessi lán. Þannig að mér finnst skipta máli — og þar tel ég að frumvarp fjármálaráðherra gegni ákveðnu hlutverki — að við náum einhvern veginn niður að rót vandans þannig að það standi einfaldlega ekki undir sér, borgi sig ekki fyrir þessi fyrirtæki, að stunda þá háttsemi sem við þekkjum því miður dæmi um og virðist vera erfitt að ná tökum á, jafnt þótt við legðum á ríkara bann við henni en hún er nú þegar.