150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[15:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það hefur verið nokkurs konar samkvæmisleikur að reyna að geta sér þess til hvernig ríkisstjórnin sjái framtíðarbankakerfið fyrir sér hér á landi og aðkomu ríkisins að þeim rekstri. Lárus Blöndal, formaður stjórnar Bankasýslunnar, sagði í júlí á þessu ári að undirbúningur tillagna þar um tæki tíma og að ekki síst þyrftu stjórnvöld tíma, Bankasýslan færi ekki í umfangsmikla vinnu að tillögu um sölu bankanna nema ríkisstjórnin væri tilbúin að hlíta þeirri tillögu.

Hæstv. menntamálaráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali á Sprengisandi 8. september að það væri forsenda fyrir sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum að eigendastefna ríkisins yrði uppfærð.

Hv. þm. Vinstri grænna, Kolbeinn Óttarsson Proppé, birti grein í Fréttablaðinu 18. september þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að nýta eigi tækifærið til breytinga þegar ríkið á svo stóran hlut í bankakerfinu og stingur upp á að banki í ríkiseigu verði fjárfestingarbanki loftslagsmála.

Þann 26. september sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að hann vonaðist til að á næstu vikum kæmi tillaga frá Bankasýslunni sem leggja mætti fyrir þingið um sölu á hlut ríkisins í bönkunum. Bankasýslan er búin að segja að það muni hún ekki gera nema stjórnvöld séu einhuga um að selja. Eru þau það? Vonandi fáum við skýrari mynd af því að þessari umræðu lokinni.

Mér finnst ekki tímabært að undirbúa sölu bankanna á meðan almenn umræða eða stefnumótun stjórnvalda um framtíðarskipulag fjármálakerfisins hefur ekki farið fram. Sporin hræða þegar þeir tveir sömu flokkar eru nú í ríkisstjórn og síðast þegar bankarnir voru seldir með afleiðingum sem ekki þarf að minna landsmenn á hverjar urðu.

Það þarf að tryggja almenningi aðgang að nauðsynlegri bankaþjónustu og að ódýrasta greiðslumiðlun sem völ er á standi öllum jafnt til boða. Bankarnir veita nauðsynlega þjónustu sem varðar okkur öll. Þeir stunda greiðslumiðlun, ávaxta sparifé og veita lán til húsnæðiskaupa eða annarra framkvæmda sem tengjast rekstri heimila og fyrirtækja. En eins og málum er nú háttað er samhliða stunduð fjárfestingarstarfsemi, stundum mjög áhættusöm, sem fjármögnuð er með sparifé almennings. Bankar í eigu ríkisins ættu að draga sig út úr þess háttar starfsemi. Það getur skapað rými fyrir samkeppni á þeim sviðum þar sem ekki er verið að nýta sparnað almennings með innstæðutryggingarábyrgð til fjármögnunar á áhættusömum fjárfestingum. Einungis aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi sem er fjármögnuð með innlánum og fjárfestingarbankastarfsemi sem ekki er fjármögnuð með innlánum getur komið í veg fyrir að almenningur taki áhættuna af glæfralegum fjárfestingum fjármálafyrirtækja.

Hæstv. fjármálaráðherra og fleiri hafa beitt þeim rökum fyrir sölu á hlutum ríkisins í bönkunum að það sé áhættusamt fyrir ríkið að reka banka. Raunin er hins vegar sú að sala á eignarhlut í bönkum verður ekki til að losa ríkið undan áhættu af bönkum sem geyma innstæður viðskiptavina. Ríkið mun hvort sem er koma kerfislega mikilvægum bönkum til bjargar fari þeir á hausinn.

Herra forseti. Áhætta og kostnaður af fjárfestingum sem fara í súginn á að vera óskipt hjá þeim sem stunda áhættusöm viðskipti, ekki hjá almenningi. Þess vegna þarf að skilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabönkunum og gera það á meðan ríkið er stærsti eigandi bankakerfisins.

Bankarekstur lýtur ekki sömu lögmálum og annar atvinnurekstur. Bankar eru ekki eins og hefðbundin hlutafélög á markaði heldur líkari veitustarfsemi, sjálfsagðri þjónustu við almenning. Kannanir sýna að almenningur er jákvæður gagnvart því að ríkið reki banka. Almenningur ber ekki mikið traust til bankakerfisins í heild en treystir ríkinu til að reka banka. Gallup-könnun sem birt er í hvítbók um bankakerfið sýnir að einungis 14% vilja að einkaaðilar reki bankana. Fleiri kannanir sýna að meiri hluti landsmanna, sem eru viðskiptavinir bankanna og eiga tvo þeirra, vill ekki þann asa sem hæstv. fjármálaráðherra virðist vilja hafa á því ferli að koma hlutum ríkisins í bönkunum í hendur einkaaðila. Spurningunni um hvernig framtíðarbankakerfið eigi að vera svo það þjóni almenningi sem best hefur ekki verið svarað af hálfu stjórnvalda.