150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

rafvæðing hafna.

177. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég er komin hingað til að spyrja hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um rafvæðingu hafna. Í fyrsta lagi hvort eitthvað hafi verið unnið með verkefni aðgerðaáætlunar um orkuskipti í íslenskum höfnum og í öðru lagi hvort ráðherra telji rétt að ríkissjóður taki þátt í að rafvæða hafnir landsins.

Í ljósi stefnu stjórnvalda um orkuskipti í haftengdri starfsemi hefur krafan um rafvæðingu hafna vaxið mikið en ekki síður í ljósi fjölgunar skipakoma skemmtiferðaskipa til landsins. Í skýrslu um orkuskipti í íslenskum höfnum kemur skýrt fram að háspennutengingar vanti fyrir stærri skip. Þá er ljóst að þessi stóru skip menga verulega þegar þau liggja við hafnir Íslands en bæði brennisteinn og svifryk berast saman frá skipunum og yfir byggð. Þannig kom fram í fréttum í ágúst að magn brennisteinssvifryks sem mældist við Sundahöfn í Reykjavík sé sambærilegt við 3.000–5.000 bíla samkvæmt mælingum fyrir íslensk náttúruverndarsamtök.

Í þessu samhengi má einnig nefna að í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá árinu 2016, sem heitir á ensku, með leyfi forseta, „Ambient air pollution: A global assessment of exposure and burden of disease“ kemur fram að enginn umhverfisþáttur hafi jafn neikvæð áhrif á lýðheilsu og loftmengun. Við vitum að með rafvæðingu hafna gætum við minnkað þessa mengun. Þó að kostnaðurinn sé e.t.v. mikill er líklegt að samfélagslegar og umhverfislegar afleiðingar af slíkri ákvörðun vegi það þungt að hún væri þess virði. Stundum þurfum við nefnilega að láta mennskuna ráða för.

Herra forseti. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi: Hver er staða verkefna aðgerðaáætlunar um orkuskipti í íslenskum höfnum sem unnin var af Hafinu – Öndvegissetri og Íslenskri NýOrku og gefin var út í janúar á þessu ári? Í kjölfar útgáfunnar var rætt um að kostnaðarmeta áætlunina áður en lengra yrði haldið. Er því mati lokið? Að lokum: Telur ráðherra koma til greina að ríkissjóður taki þátt í því með hafnarsjóðum sveitarfélaganna að greiða þann kostnað sem hlýst af rafvæðingu hafna?