150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:05]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferð hans á frumvarpinu um Þjóðarsjóð sem mér finnst hafa þroskast mjög frá því að það var fyrst lagt fram og mælt fyrir því í desember 2018. Ég fagna meiri áherslu sem finna má í þessu frumvarpi núna á grænu skuldabréfin og græna fjárfestingarsjóði. Ég fagna henni mjög.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um kröfur til rekstraraðila og umsýsluaðila vegna þess að í frumvarpinu eru gerðar nokkuð ítarlegar og góðar kröfur til stjórnarmanna en að mínu viti eru ekki eins ítarlegar kröfur gerðar til rekstraraðila. Getur hæstv. fjármálaráðherra útskýrt þetta nánar fyrir mér?