150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[19:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, hv. þingmaður er með rétt frumvarp í höndunum. Breytingin er að það kemur þarna setning sem að mörgu leyti er lík þeirri setningu sem fyrir er en sú setning vitnar beint í tímabundna atvinnu eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður. Þarna er þetta tekið í sundur þannig að eitt ár þarfnast ekki útskýringa. Eitt ár getur verið vegna þess að um er að ræða konu í fæðingarorlofi sem langar að fara heim til fjölskyldu sinnar og fá þá eitt ár eða allt að því, hvort sem hún vill fara í þrjá mánuði á einn stað og tvo mánuði á annan, til að fara til annarra landa og ferðast eða hvernig sem um háttar hjá aðilanum og síðan er lengdur sá tími sem nú stendur að sé allt að einu ári og þá stendur: „allt að tveimur árum svo sem vegna tímabundinnar atvinnu erlendis eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum.“ Þannig að ég vildi bara hafa þetta skýrt af því að ég skil að þetta getur þvælst aðeins fyrir manni. Um þetta er nánar fjallað í greinargerð frumvarpsins og þetta er auðvitað, eins og ég hef sagt, til að reyna að mæta breyttum þjóðfélagsháttum, að hafa reglurnar rýmri svo að fleiri geti óskað eftir því, og það sé skýrt, að fara til Útlendingastofnunar, þrátt fyrir ferðalög og vinnu og annað erlendis eða hvaða ástæður sem fólk kynni að hafa fyrir því.