150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

146. mál
[11:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Stækkun Atlantshafsbandalagsins, NATO, er hvorki jákvætt skref í öryggismálum Evrópu né heimsins alls. Það væri mun vænlegra að efla frið, stöðugleika og öryggi í heiminum eftir öðrum leiðum. Ég tek undir það sem hefur verið sagt um styrkingu alþjóðastofnana, samtöl og samvinnu, það er það sem við þurfum einmitt á að halda, ekki bara í friðarmálunum heldur gildir það sama þegar kemur að loftslagsvánni. Hérna þurfum við að tala saman, ekki að mynda bandalög.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði munum, eins og komið hefur fram, ekki greiða atkvæði í þessu máli og það er í takti við það hvernig við höfum áður greitt atkvæði í sambærilegum málum. Ég vísa þar m.a. til þess þegar við greiddum atkvæði um að Svartfjallaland yrði tekið inn í Atlantshafsbandalagið.

Við sitjum hjá.