150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[11:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og minnihlutaverndin lítur ágætlega út eru, eins og ég benti á í framsögu minni, aðrar leiðir líka færar. Varðandi útfærsluna á þessu hvatti ég nefndina sérstaklega til að skoða það að gæta þess að meiri hlutinn hafi líka sinn rétt. Það kann að vera að menn sjái einhverjar aðrar nálganir að því en settar eru fram í frumvarpinu og ég fagna því ef menn geta búið svo um hnúta að sem mest sátt verði um það.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um tímagjaldið, hvaða þættir eru felldir þar út, er það sú sjálfvirka leið sem snýr að því að ríkið eigi að leggja út fyrir kostnaði fyrir veiðifélögin við þessa vinnu og innheimta síðan eftir á fyrir þær óskir sem þau setja fram. Þetta er mjög óeðlilegt en ástæðan fyrir því að við gerum kröfu um að tímagjaldið verði ákveðið af okkur er sú að ráðuneytið mun skipa nefndina. (Forseti hringir.) Jafnframt bendi ég á að það er skylduaðild að veiðifélagi fyrir þá sem eiga land að veiðivatni.