150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljóst að við þetta er að glíma. Nú er það svo, þinginu til upplýsingar, að Norðmenn ætluðu að skilgreina í reglugerð magn og tegund efna sem má neyta í neyslurýmum eftir að lögunum var breytt um síðustu áramót en þeir hafa fallið frá því. Stefnan þar virðist vera að afglæpavæða neysluskammta en þeir eru komnir í þessa sömu klemmu og áður, þ.e. með að skilgreina neysluskammt. Hvað er það? Ég hef ekki enn þá séð einfalda leið til að komast út úr þeirri klemmu. En það er fyrirhugað að undirbúa reglugerð samhliða meðferð nefndarinnar á þessu máli og ég held að það væri afar gott að fá að viðra drögin að þeirri reglugerð á fundi nefndarinnar þegar nefndin er komin af stað með umfjöllun málsins.