150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni sem í daglegu tali hefur verið kallað neyslurýmisfrumvarpið og er nú flutt, þ.e. mál af þessum toga, öðru sinni af hæstv. heilbrigðisráðherra. Málið er töluvert breytt og er það til mikilla bóta. Starfsmenn hæstv. ráðherra hafa greinilega lagt sig í líma við að bregðast við þeim athugasemdum sem komu fram í meðferð frumvarpsins fyrir þinginu síðast og það er vel. Mál af þessum toga er ekkert að koma upp í fyrsta sinn á Íslandi og eins og kom fram í orðaskiptum mínum og hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, hafa þau mál verið í umræðunni lengi og þingmenn Pírata hreyft við þeim oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Þá er rétt að geta þess að fleiri stjórnmálaflokkar, m.a. Vinstrihreyfingin – grænt framboð, hafa ályktað um þessa þætti, til að mynda afglæpavæðingu neysluskammta og mikilvægi þess að leiðin til að taka á fíkniefnavanda í samfélaginu liggi ekki í gegnum það að refsa neytendunum fyrst og fremst eða notendunum heldur beina áherslunni að refsingum annars staðar.

Dálítil umræða hefur verið í samfélaginu, eins og ég kom aðeins inn á áðan, um framlagningu frumvarpsins og þar hefur að mínu viti gætt nokkurs misskilnings í því að við séum að fara af stað með eitthvert úrræði sem muni jafnvel verða mjög víða á landinu og í mörgum sveitarfélögum o.s.frv. Svo er auðvitað ekki, eða við gerum a.m.k. ekki ráð fyrir því. Ef við horfum til að mynda til þess sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins eru í Danmörku, í því 6–7 milljóna manna samfélagi, rekin fimm neyslurými. Með einfaldri statistík mætti halda því fram að það væri kannski vel í lagt að halda að slíka aðstöðu þurfi á Íslandi. En það er bara eins og með svo margt annað í mannlegu samfélagi að ef við ætlum að standa okkur sem þjóð á meðal þjóða verðum við að bjóða upp á þá þætti almennilegra velferðarsamfélaga sem almennilegar velferðarþjóðir bjóða upp á og þar með talið er úrræði eins og þetta. Þó að auðvitað sé það ekki sérstakt fagnaðarefni að bjóða þurfi upp á úrræði eins og þetta er það engu að síður mjög mikilvægt. Þess vegna fagna ég frumvarpinu.

Í umræðunni síðastliðið vor var aðeins rætt um heimildir lögreglu og með hvaða hætti hægt væri að bregðast við í tilfelli neyslurýmanna, þ.e. ef lögreglan fær vitneskju um að einstaklingur sé með fíkniefni undir höndum. Við yfirlestur á frumvarpinu get ég a.m.k. sætt mig við þann umbúnað sem nú er á því, þ.e. að tekið sé á þeim áhyggjum lögreglunnar sem komu fram við vinnslu fyrra frumvarps. Ég er hins vegar alveg tilbúinn til þess, og mun auðvitað gera það, að hlusta á þær athugasemdir sem kunna að koma fram varðandi þetta. Sá umbúnaður sem hér er er ekki nákvæmlega eins og lögreglan lagði til, ef ég man rétt, en ég tel að hann ætti að duga og þá er það bara eitt af því sem við munum ræða í meðförum nefndarinnar hvort hægt sé að hnykkja enn frekar á þeim atriðum.

Á sama hátt eru í þessu frumvarpi ekki tilteknar vísanir í lög um heilbrigðisstarfsmenn sem voru í fyrra frumvarpi, þ.e. í lög nr. 34/2012, enda kom fram í umræðunni í nefndinni, og raunar hefur það líka komið fram á fundum nefndarinnar frá starfsmönnum ráðuneytisins, að auðvitað þurfi ekki að taka það sérstaklega fram að lög um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðislög almennt gildi. Ég er hins vegar dálítið að hugsa um það að kannski væri allt í lagi að hafa þessar vísanir engu að síður til að hnykkja enn frekar á því að þau atriði gildi.

En ég tel að með þessu frumvarpi og raunar með frumvarpinu sem hefur verið títtnefnt hér í umræðunni um vörslu neysluskammta, séum við að stíga afar mikilvægt skref í þá átt að hætta að hafa fókusinn á refsingum eða aðgerðum, skulum við segja, vegna fíkniefnanotkunar í samfélaginu, gegn notendum. Við erum að taka utan um þann hóp sem er svo ólánssamur að ánetjast þessum efnum með allt öðrum hætti og þar með að taka það hlutverk okkar sem samfélags alvarlega að við eigum að sinna öllum þegnunum og við eigum að sinna þeim á þeirra forsendum að eins miklu leyti og við mögulega getum.