150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Ég er sammála því að rökræðukannanir eru af hinu góða og eru eitthvað sem ætti að gera mun oftar og samráð við almenning er gott. Það er mjög gott. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu máli er að það er búið að hafa samráð við almenning en það var hunsað. Við getum haft endalaust aftur og aftur samráð við almenning en af hverju á almenningur að taka þátt þegar það samráð er svo hunsað? Það er það sem ég er að benda á. Spurning mín til ráðherra sneri að því að við erum búin að fara í gegnum mjög lýðræðislegt ferli sem var hunsað og nú á að gera það aftur. Ég efast um trúverðugleika ferlisins þegar verið er að taka það upp aftur.

Forseti. Í umræddu kynningarmyndbandi tók ég einnig eftir að hæstv. forsætisráðherra sagði eftirfarandi um rökræðukannanir:

„Með svona aðferð og ef við fáum skýrar niðurstöður þá held ég að þetta geti orðið mjög hjálplegt tæki fyrir stjórnvöld í framtíðinni að virkja þessar aðferðir til þess að fá almenning að borðinu með öðrum hætti en í einföldum þjóðaratkvæðagreiðslum.“

Mig langar að spyrja: Er hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að halda því fram að þjóðaratkvæðagreiðslur virki ekki? Að áralangur undirbúningur að fullmótaðri hugmynd um stjórnskipan, (Forseti hringir.) sem allur almenningur hefur kost á að tjá sig um, (Forseti hringir.) sé einhvern veginn minna virði en 300 manna fundur í tvo daga? Hvað með allt ferlið sem við höfum þegar farið í?