150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ferðaþjónustuna var ég ekki, ólíkt hv. þingmanni, að leggja til að hækka skatta á hana um 2,5 milljarða. Það var í fjárlagafrumvarpi hv. þingmanns sem var lagt hér fram fyrir tveimur mánuðum. Ég veit að það hefur verið dregið til baka en frumvarpið er ekki sérstaklega gamalt og þá var gert ráð fyrir 2,5 milljörðum. Ég var ekki að leggja það til. Til lengri tíma litið þurfum við að taka þá umræðu, og höfum svo sem gert það áður, að finna réttláta leið til að auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Ég átta mig algerlega á því að nú er kannski ekki rétti tíminn en einhvern tímann þurfum við að taka umræðuna því að erlendir ferðamenn nýta sér sameiginlega auðlind, alveg eins og útgerðarmennirnir nota sameiginlega auðlind. Erlendir ferðamenn nýta sér þá sameiginlegu auðlind sem felst í náttúrunni og mannauðnum og menningunni. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til að auka tekjur úr þeim geira. Við hljótum að geta fundið einhverja leið sem greinin sjálf þolir og gæti sætt sig við. Þessar tekjur myndu að sjálfsögðu fara í uppbyggingu og fjárfestingar sem ekki síst gagnast greininni sjálfri.