150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir andsvarið. Ef við horfum á það hvernig akstur og ökutæki eru skattpínd þá er alveg borð fyrir báru innan þess ramma að taka þessa 3 milljarða til ívilnana hvað varðar vörugjöld og virðisaukaskatt á umhverfisvæna bíla. Það er síðan allt önnur umræða hvort það sé skynsamlegt til mikið lengri tíma en við erum að horfa á núna. Ég held að þetta gerist með þeim hætti að framleiðendur bílanna stýri þessu miklu frekar en við með innlendum skattareglum. En nú er stuttur tími eftir þannig að ég ætla ekki að fara dýpra í það.

Spurningin var: Hvernig ætlar Miðflokkurinn að fjármagna þessar aðgerðir? Miðflokkurinn leggur áherslu á það að fyrirtæki og heimili landsins blómstri þannig að aukin skattheimta, heildartekjur verði af því. Það getur m.a. náðst með því að lækka skatta, skattprósentur. Það ýtir undir efnahagslífið (Forseti hringir.) sem skilar meiri sköttum í ríkiskassann. Við viljum ekki fara þá braut(Forseti hringir.) sem þingflokkur Vinstri grænna til að mynda er áhugasamur um að feta, (Forseti hringir.) að bæta verulega í græna skatta, svo það liggi fyrir.