150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

traust almennings í garð sjávarútvegskerfisins.

[15:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Sú söguskýring þessarar ríkisstjórnar að lagabreytingin hafi leitt til hækkunar á veiðigjöldum er orðin æðiþreytt. Það er fyrst og fremst vegna þess að viðmiðunarári var breytt og árið 2017 var ekki lengur lagt til grundvallar sem var verkfallsár í sjávarútvegi með tilheyrandi tjóni fyrir afkomu. Það hefur ekkert með kerfisbreytingu í veiðigjöldunum að gera, annað viðmiðunarár var einfaldlega lagt til grundvallar.

Sú einfalda, skýra staðreynd að eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins virðist vera tilbúið að borga tvöfalda þá fjárhæð sem það greiðir í veiðigjald hér á landi á hvert kíló fyrir nýtingarheimild í Namibíu sem er mjög afmörkuð í tíma getur ekki aukið traust landsmanna á því að um sanngjarna hlutdeild í arði auðlindanýtingarinnar sé að ræða.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra aftur: Er hún sammála því að þessar upplýsingar séu til þess að auka traust landsmanna á því að þjóðin njóti sanngjarnrar hlutdeildar (Forseti hringir.) í nýtingu þessarar verðmætu auðlindar?