150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

fjárframlög til saksóknaraembætta.

[15:31]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég veit ekki betur en að ráðherra hafi einmitt sagt að þessar stofnanir þyrftu á peningum að halda. Þær hafa líka sent inn sérstaka beiðni um það. Ég vek athygli á því að ráðherrann vísar hér í notkun á varasjóðum en samkvæmt lögum má bara nota varasjóði þegar ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti. Við erum ekki enn búin að loka fjárlögunum. Mér finnst ráðherra fara gróflega fram hjá þinginu, ég vek athygli á því og spyr: Finnst fólki fullkomlega eðlilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins ákveði bara einn hvað, hvort og hverjir fái fjármuni til að rannsaka Samherjamálið? Það gerist þegar varasjóðir eru nýttir en ekki fjárlög. Það er ótrúlegt að ætla að afgreiða fjárlög á morgun án þess að gera ráð fyrir krónu til viðbótar vegna Samherjamálsins.

Er það tilviljun? Af hverju vilja stjórnarflokkarnir ekki tryggja þessa fjármuni í fjárlögum næsta árs?

Nú áttu skattrannsóknarstjóri og héraðssaksóknari ekki einungis að fá lækkun á næsta ári samkvæmt fjárlögum heldur líka 2021 og 2022. Ég vil því einnig spyrja: (Forseti hringir.) Verður fallið frá slíkri lækkun eða getum við tryggt að þessir aðilar fái fullnægjandi fjármagn í rannsókn sem getur tekið mörg ár, herra forseti?