150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

málefni Isavia.

[15:41]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Málefni Isavia hafa mikið verið í umræðunni undanfarið vegna skipulagsbreytinga hjá félaginu. Áform eru uppi um að hluti starfseminnar færist í dótturfélög og Isavia verði móðurfélag utan um Keflavíkurflugvöll. Keflavíkurflugvöllur er gáttin inn í landið því að langflestir þeirra sem sækja landið heim koma þar í gegn. Því er um að ræða einokunarstarfsemi sem byggst hefur upp á fákeppnismarkaði. Það er því gríðarlega mikilvægt að vel sé haldið utan um starfsemi á vellinum og deginum ljósara að hún á að vera á hendi ríkisins. Þá ber að athuga að flugvöllurinn gegnir mikilvægu öryggishlutverki sem þessi gátt inn og út úr landinu og að mínu mati þarf að hafa það í huga í allri ákvarðanatöku sem snýr að flugvellinum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ráðherra til þessara skipulagsbreytinga Isavia? Er ráðherra sammála því að mikilvægt sé að Keflavíkurflugvöllur sé áfram í eigu ríkisins? Getur ráðherra staðfest að engin áform um einkavæðingu Keflavíkurflugvallar séu uppi?