150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

um fundarstjórn.

[15:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Mér finnst það mjög alvarlegt mál og ástæða til að taka upp á fundi þingflokksformanna og í forsætisnefnd að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skuli ítrekað taka fram að hann ætli ekki að fara eftir lögum um opinber fjármál. Það er algerlega fyrirséð að héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri þurfa á auknum fjármunum að halda til að sinna því stóra máli sem Samherjamálið er, sem teygir sig til í það minnsta þriggja landa, til bankastarfsemi, til skattaskjóla, til flókinna millifærslna. Stofnanirnar hafa sjálfar sagt að þær þurfi aukið fjármagn og það þarf ekki annað en að líta á bunkana sem eru á borðum embættanna af óafgreiddum málum til að sjá að þau verða að fá aukna fjármuni til að sinna starfi sínu og þessari flóknu rannsókn. En hæstv. fjármálaráðherra vísar í varasjóði sem einungis má nota á árinu 2020 fyrir eitthvað sem er algjörlega ófyrirséð og ekki var hægt að gera ráð fyrir í fjárlögum. Þetta er alvarlegt mál og við hv. þingmenn þurfum að taka þetta til okkar.