150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Þetta er mikilvægt byggðamál og hagsmunamál fólks úti um allt land. Ég get tekið undir ýmislegt sem fram hefur komið í umræðunni en mun beina sjónum mínum á þeim stutta tíma sem ég hef að grænmetisræktendum hér á landi. Tækifærin sem liggja í því að auka matvælaframleiðslu á Íslandi með nýtingu jarðhita og hreinni raforku eru margvísleg. Flest gróðurhús á Íslandi eru staðsett utan þéttbýlis og því er dreifing raforku og kostnaður við hana og jöfnun milli dreifbýlis og þéttbýlis afar mikilvæg í því sambandi. Nauðsynlegt er að mínu mati að koma til móts við garðyrkjubændur með niðurgreiðslu flutningskostnaðar en sá kostnaður gerir mörgum erfitt fyrir. Sérstaklega er ófyrirsjáanleikinn slæmur. Dæmi eru um að garðyrkjubændur sem eru tilbúnir að framkvæma og fara í auknar fjárfestingar og meiri framleiðslu hafi ekki tekið áhættuna af lántöku þar sem hugsanlega verði niðurgreiðslan lægri frá ári til árs í búvörusamningnum og þar með stæði búið ekki undir stækkuninni.

Það er val ríkisstjórnarinnar og þingsins hversu mikið við viljum greiða niður flutningskostnað raforku á Íslandi. Við getum jafnað stöðuna þannig að allir sitji við sama borð þegar kemur að samkeppni og rekstri fyrirtækja og heimila. Við verðum að breyta neysluvenjum okkar ef við ætlum að ná einhverjum árangri í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Styrkleikar okkar til aukinnar grænmetisframleiðslu eru miklir í formi endurnýjanlegrar raforku og jarðvarma. Við ættum að láta tækniþekkingu vinna með okkur til að auka og auðvelda grænmetisframleiðslu hér á landi og jafna raforkuverð og niðurgreiða með fyrirsjáanleika.