150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

upplýsingagjöf um kolefnislosun.

199. mál
[17:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða fyrirspurn. Fyrst er kannski að segja að miklar kröfur eru lagðar á Ísland líkt og önnur ríki um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingu og mikilvægt að vel sé haldið utan um það líkt og hv. þingmaður kom inn á. Bókhaldið tengist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og hjálpar okkur að beina aðgerðum í þá átt að þær skili sem mestum ávinningi fyrir loftslagið. Einnig skiptir miklu að upplýsingagjöf sé bæði áreiðanleg og skýr. Umræða um loftslagsmál hefur stóraukist á síðustu misserum og erfitt getur verið að henda reiður á tölum um losun og hvað þær þýða, t.d. varðandi skuldbindingar Íslands.

Lögum samkvæmt er það Umhverfisstofnun sem ber ábyrgð á að halda utan um losunarbókhald Íslands og skila því til annars vegar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og hins vegar til Evrópusambandsins. Árlega er send umfangsmikil skýrsla til loftslagssamningsins. Bókhaldið er líka tekið út árlega af hálfu samningsins og athugasemdir gerðar ef eitthvað er óljóst. Margir fleiri koma að bókhaldinu, ekki síst Landgræðslan og Skógræktin, sem sjá um bókhald varðandi losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun. Umhverfisstofnun þarf gögn frá fjölmörgum aðilum, svo sem Orkustofnun, Hagstofu Íslands, Matvælastofnun og fyrirtækjum.

Ég nefni þetta til að gefa hugmynd um umfang bókhaldsins. Ég held að ég geti fullyrt að engin upplýsingasöfnun á vettvangi umhverfismála hljóti jafn mikla og góða rýni og loftslagsbókhaldið. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur fengið beiðnir um að birta upplýsingar um losun Íslands fyrr en nú er gert og hefur beint þeim til Umhverfisstofnunar. Stofnunin hefur þá bent á að miklar kröfur séu gerðar til bókhaldsins, að upplýsingar komi frá mörgum aðilum og að unnið sé samkvæmt dagsetningum og ferlum sem kveðið er á um í lögum og reglugerð og í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Iðulega hafi auk þess verið gerðar breytingar á tölum frá því að þær koma inn og þar til bókhaldi og skýrslu sé skilað til loftslagssamningsins. Umhverfisstofnun hefur af þeim sökum verið hikandi við að birta tölur fyrr.

Ég hef ákveðinn skilning á því og sýnist að erfitt sé að birta áreiðanlegar heildartölur um losun Íslands öllu fyrr en gert er. Það er hins vegar spurning hvort ekki sé hægt að setja fram fyrr bráðabirgðatölur um ákveðna þætti sérstaklega. Þar vil ég nefna losun vegna eldsneytisnotkunar sem gæti komið að verulegu gagni í tengslum við aðgerðir varðandi orkuskipti í samgöngum sem líka er áherslumál. Þetta mætti gera með fyrirvara um nákvæmara mat síðar. Ég tel rétt að kanna þetta því að krafa um skýra og tímanlega upplýsingagjöf innan lands hefur vaxið með auknum áhuga á loftslagsmálum. Ég mun því biðja starfsmenn ráðuneytisins að skoða þetta í samstarfi við Umhverfisstofnun og tek þar með undir með hv. þingmanni, ég held að við séum nokkuð sammála um þetta og mikilvægi þess að þessar upplýsingar séu sem fyrst á reiðum höndum í tíma.

Ég vil líka benda á í því samhengi að Hagstofa Íslands hefur eflt starf sitt varðandi loftslagsmál og gefur núna reglulega út tölfræði um losun. Þar er notast við aðra flokkun á uppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda en Umhverfisstofnun notar. Flokkun Hagstofunnar er í samræmi við alþjóðlega hagstofustaðla en Umhverfisstofnun styðst við leiðbeiningar loftslagssamningsins. Hvort tveggja er rétt, en ég hef orðið var við að þessi mismunandi framsetning hafi valdið ruglingi. Það er ekki gott því að við þurfum að bera upplýsingar á borð fyrir almenning og áhugasöm þannig að þær séu skýrar og vel skiljanlegar. Ég hef því beðið ráðuneytið að skoða þau mál með Umhverfisstofnun og Hagstofunni, einmitt með það fyrir augum að samræma framsetningu upplýsinga eða a.m.k. að útskýra hvers vegna tölur virðast vera mismunandi. Það skiptir ekki bara máli að fá tölur fyrr, heldur þarf að setja þær fram á skýran og aðgengilegan hátt.

Ég tek aftur fram að ég held að við hv. þingmaður séum nokkuð sammála um það atriði sem er til umræðu og þakka aftur kærlega fyrir fyrirspurnina.