150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

upplýsingagjöf um kolefnislosun.

199. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Spurningin snýst um það að við getum verið svolítið sambærileg og á svipuðu pari og vinaþjóðir okkar til að mynda á Norðurlöndum þannig að við höfum úr sömu upplýsingum og sömu gögnum að vinna. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hnýti í stofnanir sem tengjast umhverfismálum og reyna að miðla gagnmerkum gögnum. Ég lýsi yfir ákveðinni samúð með hæstv. ráðherra að þurfa að standa í þessari baráttu lon og don samhliða því stóra verkefni að efla umhverfisvitund og horfast í augu við hamfarahlýnun vegna loftslagsmála.

Við verðum að hafa hugfast, af því að Parísarsamningurinn var nefndur, að við erum að tala um það samhengi að samdráttur í losun er frá þessum fimm geirum; samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði, minni iðnaði og úrgangi. Þetta eru nákvæmlega þeir geirar sem falla undir ábyrgð stjórnvalda gagnvart Parísarsamningnum. Ef við skoðum þessa fimm geira er einmitt losunin vegna vegasamgangna 34%. Það er ekki hægt að tala það niður. Það skilar mestum árangri, ef við getum gagnályktað sem svo, að einblína einmitt á þennan geira með aukinni rafbílavæðingu og/eða auknum almenningssamgöngum. Ég fagna því sem er að gerast einmitt á höfuðborgarsvæðinu hvað það varðar.

Ég ítreka og undirstrika aftur það sem ég kom ekki nægilega skilmerkilega frá mér áðan að mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra, um leið og ég tek undir með honum að gögnin þurfa að vera sambærileg, við þurfum að hafa þau skýr, aðgengileg, nýtileg og gegnsæ, hvort hæstv. ráðherra telji unnt að reka trúverðuga loftslagsstefnu eða aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ef gögnin eru tveggja ára gömul.