150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir að við erum með öflugar og burðugar stofnanir. Af því að hv. þingmaður kom inn á skattrannsóknarstjóra: Ef við tökum þau embætti, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara, öll saman erum við með heimildir upp á yfir 5 milljarða til að takast á við ólík mál. Hér kemur upp eitthvert mál í fjölmiðlum sem hv. þingmaður vill vísa til og ætlast til þess — talandi um lög um opinber fjármál — að við förum að ýta útgjaldaheimildum af stofnunum út af einhverjum tilteknum málum í fjölmiðlum. Það væri fyrst þá sem við værum farin að dansa á mjög skrýtinni línu í lögum um opinber fjármál, talandi um þau. Við erum með mjög öflugar stofnanir, miðað við 5 milljarða, sem munu takast á við þau mál eins og þau koma fyrir. Fjárlaganefnd hefur ekki fengið neina sérstaka beiðni um að setja á (Forseti hringir.) frekari útgjaldaheimildir. Þetta er samtal sem hæstv. ráðherrar og forystumenn þessara stofnana takast væntanlega á við.