150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú þegar við ljúkum hér 3. umr. um fjárlagafrumvarp er mikilvægt að horfa á heildarmyndina. Aldrei hafa útgjöld ríkissjóðs verið aukin jafn mikið á jafn skömmum tíma með jafn litlum sýnilegum árangri. Við glímum enn við sama vandamálið í heilbrigðiskerfinu, sömu biðlistana, sama fráflæðisvandann, sama skort á hjúkrunarrýmum. Við erum enn og aftur að undanskilja öryrkja og eldri borgara frá þeim kjarabótum sem samið hefur verið um á vinnumarkaði og í fjárfestingum hins opinbera erum við enn undir langtímameðaltali. Það er verið að svelta hina nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem lengi hefur verið kallað eftir. Ríkisstjórnin hefur skellt skollaeyrum við þeim aðvörunarorðum sem beint hefur verið að henni frá upphafi um að allt of bratt væri farið í útgjaldaaukningu á varhugaverðum tímum í hagstjórn. Rakið svigrúm hefði verið til að lækka skatta og auka verulega opinbera (Forseti hringir.) fjárfestingu á tímum efnahagslegrar niðursveiflu en ríkisstjórnin hefur með eyðslusemi sinni séð til þess að svo verður ekki það sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Það eru eftirmæli þessarar ríkisstjórnar.