150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

aðgengi að RÚV í útlöndum.

[10:49]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Við erum býsna sammála og það sem meira er, þegar við þingmenn Miðflokksins lögðum þetta mál fram á síðasta þingi fengum við umsögn um málið frá RÚV og þar sagði að í stefnu RÚV væri sérstaklega tekið fram að RÚV vildi vinna að því að gera Íslendingum erlendis kleift að hlusta eða horfa á alla efnisveitu útvarpsins. Það kom einnig fram að það er smátæknileg vinna eftir en ég vona sannarlega að það verði komið í ljós fyrir áramótin vegna þess að nú þegar getur RÚV ákveðið hvaða efni hægt er að horfa á. Ég nefni ýmsa viðburði, t.d. Eurovision. Þá er eins og ekki þurfi annað en að ýta á einn takka sem segir mér að tæknin sé komin. (Forseti hringir.) Ég brýni ráðherra til að hraða þessu eins og mögulegt er.