150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

ráðningarfyrirkomulag hjá RÚV.

[15:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætlaði upphaflega að beina fyrirspurninni til annars ráðherra en orð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og svör um ráðningarfyrirkomulag stjórnar RÚV á nýjum útvarpsstjóra vöktu athygli mína. Það er alveg skýrt að ábyrgð á rekstri RÚV ohf. liggur hjá stjórn RÚV sem skipuð er með þeim hætti sem við þekkjum ágætlega, m.a. af fulltrúum allra stjórnmálaflokka hér. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra ætlaði að kalla stjórnina fyrir sig til að skamma hana fyrir það hvernig hún háttar sjálfstæði sínu í stjórn á miðlinum með því að krefjast þess að stjórnin breyti fyrirhuguðu ráðningarfyrirkomulagi sínu. Stjórnin fer hins vegar að ráðum fagaðila, eins og skýrt hefur komið fram í rökstuðningi stjórnarinnar fyrir því fyrirkomulagi, að birta ekki nafnalista umsækjenda.

Ég er í hópi þeirra sem eru algjörlega sammála stjórninni hvað þetta varðar og hefur ítrekað verið bent á það í umfjöllun um ráðningarfyrirkomulag opinberra aðila, m.a. einmitt af áðurnefndum fagaðilum, þeim aðilum sem sérhæfa sig í ráðningum á starfsfólki, að gæði umsókna verði lakari þegar nafnabirtingar eru viðhafðar, enda vitum við það öll sem höfum starfað á almennum vinnumarkaði að enginn tilkynnir vinnuveitanda sínum fyrir fram að hann eða hún sé að leita sér að annarri vinnu, hvað þá auglýsi í blöðum að viðkomandi hafi sótt um annað starf. Það liggur í augum uppi að til þess að fá sem mest gæði mögulegra umsækjanda er mikilvægt að leyfa fólki að njóta nafnleyndar. Síðan hlýtur stjórnin að standa frammi fyrir rökstuðningi (Forseti hringir.) á vali sínu þegar þar að kemur. Mér finnst ámælisvert ef hæstv. ráðherra ætlar að grípa fram fyrir hendurnar á stjórninni eins og hún er að boða hér.