150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

skráning einstaklinga.

101. mál
[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef við værum í fyrsta sinn að setja þessi lög og hefðum enga þjóðskrá fyrir er ég ekki viss um að ég myndi greiða því atkvæði mitt. Mér finnst upplýsingasöfnunarárátta Íslendinga almennt vera fram úr góðu hófi. Aftur á móti er þetta frumvarp mikil bót á því fyrirkomulagi sem hefur verið áður og er afrakstur þess að við settum hér GDBR-lögin, nýju persónuverndarlögin, á sínum tíma. Við í Pírötum styðjum málið.

Sömuleiðis vildi ég segja: Við styðjum líka breytingartillögur meiri hlutans sem eru allar góðar, eftir því sem við fáum best séð, en erum einnig með okkar eigin breytingartillögur, sem við styðjum að sjálfsögðu líka, og ég mun gera grein fyrir hér eftir því sem atkvæðagreiðslunni vindur fram.