150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en að taka til máls þó að þetta tengist kannski ekki beinlínis mínu málefnasviði vegna þess að skattalækkun er skattalækkun. Það er ótrúlega ánægjulegt að taka þátt í því að greiða atkvæði með skattalækkun sem mun þýða 20 milljarða á ári þegar hún er komin að fullu til framkvæmda. Ég skal alveg viðurkenna, virðulegi forseti, að ég varð örlítið undrandi við að hlusta á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Í fullri alvöru segja menn að þeir hafi ekki skrifað nefndarálit af umhverfisástæðum. Og Miðflokkurinn? Hann greiðir ekki atkvæði með skattalækkunum. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að allir kjósendur viti af því. Hér erum við að tala um gríðarlega mikla skattalækkun. Annaðhvort greiða menn atkvæði með því eða ekki. Því að málið er einfalt. Ef allir myndu greiða atkvæði eins og Miðflokkurinn yrði engin skattalækkun.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta sé komið fram og greiði atkvæði með þessu af mikilli gleði og ánægju.