150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:17]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þar sem ég er með eindæmum félagslyndur maður ætla ég að slást í hóp þeirra manna sem leggja sig hér fram um að vera leiðinlegir. Ég vil taka fram áður en ég ber upp fyrirspurnina að ég er ekki löglærður maður en hins vegar eru nokkrir þingmenn í salnum löglærðir. Mér finnst svolítið skrýtið að hlusta á þessa umræðu. Það má vera að ég hafi á röngu að standa og vildi þá gjarnan vera leiðréttur en eins og það blasir við mér er í grunninn handhafi framkvæmdarvalds að leggja fram frumvarp en sá hinn sami er einnig handhafi löggjafarvaldsins. Hann leggur fram frumvarp um að grípa raunverulega inn í eitthvað sem dómsvaldið á að gera samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Við hljótum að velta því fyrir okkur ef við hugsum um réttarríkið og grunnstoðir þess að það er heilagt, eins langt og það nær, ekki fullkomið kerfi, alveg rétt, en a.m.k. hefur ekki komið fram betra kerfi hingað til.

Er það ekki tærasta birtingarmynd spillingar ef við ætlum að fara að haga okkur eins og hér er verið að ræða? Spilling hefur líka verið til umræðu hér. Erum við þá ekki komin út á ansi hálar brautir ef við ætlum að kássast upp á þrískiptingu ríkisvaldsins? Ég velti því fyrir mér. Mér finnst áhugavert að umræðan sé komin þetta langt, að hún sé komin í 3. umr. og kannski næst til atkvæðagreiðslu ef málinu verður ekki snúið aftur til nefndar.

Mér finnst að það ætti að hugsa mjög vel hvort ekki ætti að taka þetta mál af dagskrá.