150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[19:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og þá kemur í raun og veru önnur spurning í framhaldi af því. Eins og þingmaðurinn kom inn á um verð á mjólk og hvernig það hefði getað þróast, hefði mátt gefa sér að þá hefði þróunin getað orðið á þann veg að samþjöppunin hefði orðið meiri, að það hefði verið þá frekar í krafti stærðarinnar sem bú hefðu getað rekið sig? Þingmaðurinn kom inn á að það er meiri hagræðing í því að hafa stærri fjós. Þetta er þá önnur spurningin. Seinni spurningin er að þegar frumvarpið verður að lögum — eða ef, ég veit ekki hvort ég þori að segja „ef“ núna (Gripið fram í.) eftir andsvar ráðherra áðan. En sér þingmaðurinn fyrir sér að það sé meiri grundvöllur fyrir lítil, meðalstór og stór bú að geta starfað í greininni eftir að þetta frumvarp verður samþykkt þannig að litlir og stórir geti verið í sátt og samlyndi að mjólka sínar kýr?