150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

starfslokasamningur fráfarandi ríkislögreglustjóra.

[15:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni varðandi þetta. Ég vonast til að fá skýrslu Ríkisendurskoðunar upp úr áramótum og hún tekur auðvitað á ýmsu um þetta embætti. Ég tel að lögregluráðið og sú breyting breyti litlu þar um af því að ég átti víðtækt samráð við alla aðila innan kerfisins og alla hlutaðeigandi aðila um leið og vandkvæðin komu upp innan lögreglunnar, í rauninni strax um viku eftir að ég tók við embætti dómsmálaráðherra. Þar sá ég að rót vandans í svo veigamiklum og mörgum atriðum sem upp hafa komið var samskiptaleysi og samráðsleysi milli ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranna. Ég held að þessi breyting muni ekki koma í veg fyrir aðrar breytingar sem gæti þurft að gera í kjölfarið á þeirri skýrslu sem kemur eða þeirri vinnu sem þar mun fara fram. Ég held aftur á móti að það verði mjög gott að hafa nýtt lögregluráð þegar svona skýrsla kemur fram til að ræða mögulegar og þarfar breytingar, m.a. á skipulagi lögreglunnar og framtíð ríkislögreglustjóraembættisins.