150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, margt áhugavert kom þar fram. Mig langaði til að nýta mér þekkingu hv. þingmanns á flugsamgöngum til að reifa nokkrar hugmyndir. Það fyrsta væri að fá fram skoðun þingmannsins á þeim hugmyndum sem uppi eru um flugvallargerð í Hvassahrauni, og þá með hliðsjón af reynslu hans, hvort þetta sé raunhæft, hvort þetta standi undir kostnaði. Nú lítur út fyrir að þetta geti kostað um það bil 300 milljarða kr. og ég spyr hvort það sé réttlætanlegt í stóra samhenginu miðað við aðra valkosti sem liggja fyrir, og kannski hvernig hann sér fyrir sér að alþjóðafluginu verði háttað.

Mig langar líka að spyrja um afganginn af flugkerfinu, þ.e. lendingarstaði og minni flugvelli. Þá er ég að tala um minni flugvelli eins og Bíldudal, Vestmannaeyjar, Vopnafjörð og Gjögur og lendingarstaði eins og Rif, Fagurhólsmýri, Hellu, Siglufjörð o.s.frv. Hvernig sér hann fyrir sér, kannski aðallega í þessu samhengi, að þetta muni verða rekið til framtíðar? Hvernig sér hann fyrir sér að þetta verði fjármagnað? Hvernig sér hann fyrir sér að það verði tryggt að þetta virki?

Nú er mörgum þessum stöðum illa við haldið í dag, því miður, en geta skipt miklu máli, eins og t.d. í því tilfelli að Fagurhólsmýri var notuð fyrir Landhelgisgæsluna þegar stórslys varð. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að lendingarstaðir fái hlutverk eða alla vega skilgreinda viðurkenningu í samgönguáætlun sem hefur ekki verið til þessa.